Hækka lágmarksaldur til kaupa á hálf sjálfvirkum vopnum

Kathy Hochul ríkisstjóri skrifaði undir frumvarpið í dag.
Kathy Hochul ríkisstjóri skrifaði undir frumvarpið í dag. AFP

Kathy Hochul, ríkisstjóri New York-ríkis í Bandaríkjunum, skrifaði undir nýtt lagafrumvarp í dag sem felur meðal annars í sér hækkun á lágmarksaldri til kaupa á hálf sjálfvirk vopn úr 18 árum í 21.

New York er þar með eitt af fyrstu ríkjum Bandaríkjanna til að herða aðgengi að skotvopnum í kjölfar skotárásar á barna­skóla í Uvalde í Texas í lok maí þar sem 19 börn létust og tveir fullorðnir.

Hochul er demókrati og hefur gegnt stöðu ríkisstjóra í tæplega ár en hún tók við af Andrew Cu­omo sem sagði af sér í kjölfar ásakana um kynferðisofbeldi. 

Á vef AP-fréttaveitunnar kemur fram að lagafrumvarp Hochul feli í sér tíu liði, meðal annars að skylda framleiðendur til að merkja skotvopn svo auðveldara verði fyrir lögreglu að leysa glæpi.

„Í New York erum við að grípa til djarfra og öflugra aðgerða,“ sagði Hochul á blaðamannafundi og bætti við að herða ætti lög sem kveða á um að taka megi skotvopn af fólki sem stafar hætta af.

Frumvarpið gekk greiðlega í gegnum báðar deildir þings New York ríkis í liðinni viku en fyrir þremur vikum notaði 18 ára piltur hálf sjálfvirka byssu sem varð tíu manns að bana í matvöruverslun í Buffalo, sem er í New York ríki.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert