Áhrif stríðsins munu aukast um allan heim

Antonio Guterres, aðalritari Sameinuðu þjóðanna.
Antonio Guterres, aðalritari Sameinuðu þjóðanna. AFP

António Guterres, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, sagði í dag að afleiðingar af innrás Rússa í Úkraínu muni aukast um allan heim og hafa áhrif á 1,6 milljarð manna.

„Áhrif stríðsins á fæðuöryggi, orku og fjármál eru kerfisbundin, alvarleg og hraðari en áður,“ sagði Guterres þegar hann kynnti aðra skýrslu Sameinuðu þjóðanna um afleiðingar átakanna.

Hann bætti við að „fyrir fólk um allan heim hóti stríðið því að hleypa af stað fordæmalausri öldu hungurs og örbirgðar, sem skilur eftir sig félagslegan og efnahagslegan glundroða í kjölfarið“.

Guterres sagði að þótt matarkreppan í ár snúist „um skort á aðgengi“, gæti næsta ár „snúist um skort á mat“.

Innrásinni verði að ljúka

Hann sagði aðeins eitt geta stöðvað þessa þróun: „Innrás Rússa í Úkraínu verður að ljúka.“

Guterres sagðist hafa beðið samstarfsmenn sína um að hjálpa til við að finna samning sem gerir meðal annars ráð fyrir öruggum útflutningi á úkraínskum matvælum um Svartahafið.

„Þessi samningur er nauðsynlegur fyrir hundruð milljóna manna í þróunarlöndum, þar á meðal í Afríku sunnan Sahara,“ sagði Guterres.

Í skýrslu Sameinuðu þjóðanna segir að áætlað sé að 94 lönd, þar sem búa um 1,6 milljarðar manna, séu „alvarlega útsett fyrir að minnsta kosti einni hlið krísunnar og geti ekki tekist á við hana."

Þá segir einnig að vegna stríðsins geti fólki sem býr við fæðuóöryggi fjölgað um 47 milljónir árið 2022.

mbl.is