Kalla eftir áframhaldandi leit að mönnunum

Dom Phillips og Bruno Pereira hurfu sporlaust á sunnudag.
Dom Phillips og Bruno Pereira hurfu sporlaust á sunnudag. AFP

Dom Phillips, 57 ára gamall blaðamaður The Guardian frá Bretlandi, og Bruno Pereira, 41 árs gamall, hurfu sporlaust í regnskóginum Amazon í Brasilíu á sunnudag.

Fjölskylda Phillips kallar eftir því að bresk og brasilísk yfirvöld leggi sig meira fram um að hafa uppi á þeim. Um þrjátíu manns hafa safnast saman fyrir utan brasilíska sendiráðið í London af þessu tilefni.

Óráðlegt að fara í þessa ferð

Jair Bolsonaro, forseti Brasilíu lét þau orð falla í fjölmiðlum að það væri gjörsamlega galið og óráðlegt af tveimur mönnum að fara í bátsferð í miðjum Amazon skógi. „Kannski varð slys, kannski voru þeir teknir af lífi.“

Systir Dom Phillips kveðst vilja að leitin haldi áfram. „Við viljum komast að því hvað kom fyrir þá og ef eitthvað saknæmt hefur átt sér stað viljum við að þeir sem beri á því ábyrgð verði sóttir til saka. Við viljum stöðuga og ítarlega rannsókn.“

Þyrla kölluð út tveimur dögum seinna

Hún sakar brasilísk stjórnvöld um að hafa tafið fyrir leitinni, en segist þó vongóð að þeir finnist að lokum. Aðeins tólf manns leituðu að mönnunum þegar ljóst var að þeir hefðu horfið. Á þriðjudeginum var þyrla loks send af stað. Nú hafa þó 150 manns tekið þátt í leitinni, að því sem fram kemur í frétt BBC.

Phillips hafði skrifað töluvert um ólöglegar veiðar á þessum slóðum en Pereira hefur barist gegn slíku athæfi. Hefur hann í kjölfarið fengið líflátshótanir og því hefur vaknað grunur um að mennirnir hafi verið teknir af lífi eða þeim rænt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert