Ekki lengur þörf á sýnatöku fyrir BNA flug

Bandaríkin hafa viðhaldið þeirri reglu að farþegar fái ekki inngöngu …
Bandaríkin hafa viðhaldið þeirri reglu að farþegar fái ekki inngöngu í landið nema þeir geti sýnt fram á neikvæðar niðurstöður úr skimunum fyrir Covid-19, eða að þau hafi fengið veiruna og náð bata á síðustu 90 dögum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Flugfarþegar á leið til Bandaríkjanna munu ekki þurfa að framvísa neikvæðu PCR prófi frá og með mánudeginum.

Um er að ræða stórt skref í afléttingu takmarkana sem hafa verið í gildi í Bandaríkjunum vegna heimsfaraldursins Covid-19.

Kevin Munoz, samskiptafulltrúi hvíta hússins, staðfesti þetta á twitter reikningi sínum.

Smitum hefur fjölgað á ný

Ferðaþjónustan hefur barist fyrir því um nokkra hríð að Bandaríkin feti í fótspor þeirra fjölmörgu ríkja sem hafa aflétt takmörkunum á landamærum sínu.

Bandaríkin hafa þó viðhaldið þeirri reglu að farþegar fái ekki inngöngu í landið nema þeir geti sýnt fram á neikvæðar niðurstöður úr skimunum fyrir Covid-19, eða að þau hafi fengið veiruna og náð bata á síðustu 90 dögum.

Í síðasta mánuði náði fjöldi dauðsfalla í Bandaríkjunum, af völdum Covid-19, yfir eina milljón. Grímuskylda hefur verið afnumin á flestum stöðum en smitum hefur þó fjölgað aðeins að undanförnu.

mbl.is