Nauðgunarmáli gegn Ronaldo vísað frá

Cristiano Ronaldo.
Cristiano Ronaldo. AFP

Bandarískur dómari hefur vísað frá máli er varðar kæru Kathryn Mayorga á hendur knattspyrnumannsins Cristiano Ronaldo vegna meintrar nauðgunar.

Mayorga, fyrrum fyrirsæta og kennari, heldur því fram að Ronaldo hafi nauðgað sér á hóteli í Las Vegas árið 2009. Fréttastofa BBC greinir frá þessu.

Mayorga lagði fram kvörtun árið 2018 þar sem hún sagðist hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi af hálfu Ronaldo, sem neitaði ásökunum harðlega.

Sagði í úrskurði dómarans Jennifer Dorsey að lögmaður Mayorga hefði skaðað Ronaldo með því að haga sér í „vondri trú“ með ítrekaðri notkun á stolnum skjölum sem væru trúnaðarmál. Þar af leiðandi hafi Mayorga misst tækifæri sitt til að reka málið.

Umrædd skjöl innihéldu tölvupósta milli lögfræðinga Ronaldo.

Ronaldo neitar því ekki að hafa hitt Mayorga í Las Vegas árið 2009, en hefur sagt að það sem gerðist á milli þeirra hafi verið með samþykki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert