FDA segir Pfizer-bóluefni örugg fyrir börn

FDA mun funda um notkun Pfizer og Moderna við bólusetningar …
FDA mun funda um notkun Pfizer og Moderna við bólusetningar barna yngri en fimm ára síðar í mánuðinum. AFP

Matvæla- og lyfjastofnun Bandaríkjanna (FDA) segir bóluefni Pfizers gegn Covid-19 vera öruggt til notkunar fyrir börn yngri en fimm ára.

Börn yngri en fimm ára er eini aldurshópurinn sem enn hefur ekki fengist samþykki fyrir að láta bólusetja í Bandaríkjunum. Stofnunin telur það vera áhyggjuefni þar sem þessi aldurhópur miðað við börn og unglinga á aldrinum fimm til sautján ára er líklegri til þess að þurfa sjúkravist vegna sjúkdómsins. Auk þess er dánartíðnin hærri hjá börnum yngri en fimm ára.

Funda með sérfræðingum

Stofnunin ætlar að funda með sérfræðingum 15. júní nk. til að taka ákvörðun um hvort stofnunin samþykki Pfizer-bóluefnin til bólusetningar barna yngri en fimm ára, sem færi fram með þremur sprautum til barna á aldrinum sex mánaða til fjögurra ára. Þá mun stofnunin ákveða hvort Moderna-bóluefni séu örugg til notkunar fyrir umræddan aldurshóp. Bólusetningin færi fram með tveimur sprautum til barna á aldrinum sex mánaða til fimm ára.

Það eru um það bil 20 milljón börn á aldrinum fjögurra ára og yngri í Bandaríkjunum. Ef Matvæla- og lyfjastofnun Bandaríkjanna samþykkir notkun áðurnefndra bóluefna þá fer málið til nefndar til endanlegrar samþykktar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert