Evrópa þungamiðja apabólufaraldursins

1.500 tilfelli af apabólu hafa greinst í 25 Evrópulöndum, þar …
1.500 tilfelli af apabólu hafa greinst í 25 Evrópulöndum, þar á meðal Íslandi, AFP

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) hefur skilgreint Evrópu sem þungamiðju apabólufaraldursins, en 1.500 smit hafa greinst í álfunni og töluverð hætta er á að faraldurinn breiðist enn frekar út. AFP-fréttastofan greinir frá.

Boðað hefur verið til neyðarfundar WHO í næstu viku til að meta hvort lýsa eigi yfir neyðarástandi á heimsvísu vegna sjúkdómsins. Þessu hæsta viðbúnaðarstigi WHO hefur aðeins verið lýst yfir vegna svínaflensu, mænu­sóttar, Ebólu, Zika­veirunnar og Covid-19.

Umfangið skapar raunverulega hættu

„Evrópa er þungamiðja þessa vaxandi faraldurs. 1.500 tilfelli hafa greinst í 25 löndum, eða 85 prósent allra tilfella,“ sagði Hans Kluge, forstjóri Evrópuskrifstofu WHO á blaðamannafundi fyrr í dag.

„Útbreiðsla þessa faraldurs skapar raunverulega hættu. Því lengur sem veiran nær að grafa um sig dreifist hún víðar og sjúkdómurinn nær frekari fótfestu í löndum þar sem hann hefur ekki verið landlægur,“ sagði Kluge jafnframt, en áður hafði apabóla nánast eingöngu þekkst í Vestur og Mið-Afríku.

Kluge sagði langflest tilfellin sem komið hafa upp í Evrópu vera meðal karlmanna sem stunda kynlíf með öðrum karlmönnum. Hann varaði engu að síður við fordómum og ítrekaði að ekki væri hægt að tengja apabólu við einhvern ákveðinn hóp.

Hætta á útbreiðslu á viðburðum í sumar

Þá varaði hann við aukinni hættu á útbreiðslu, nú þegar margir halda í sumarfrí og safnast saman í gleðigöngum, tónlistarhátíðum og á öðrum viðburðum.

„Á þessum viðburðum skapast mikil nánd á meðal ungs og kynferðislega virks fólks sem ferðast mikið á milli staða,“ sagði Kluge en ekki er þó talin þörf á því að aflýsa viðburðum vegna apabólunnar.

Andstæðingar réttindabaráttu hinsegin fólks hafa hins vegar strax gripið apabóluna á lofti sem afsökun fyrir því að leggja bann við gleðigöngum, en Steve Taylor, skipuleggjandi gleðiganga í Evrópu, fagnaði orðum Kluge um að engin ástæða væri til að aflýsa viðburðum í Evrópu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert