Lofthelgi Sviss lokað vegna tölvubilunar

Flugvélar á flugvellinum í Genf.
Flugvélar á flugvellinum í Genf. AFP

Svisslendingar hafa lokað lofthelgi sinni eftir að bilun varð í tölvukerfi flugumferðastjórnar landsins sem varð til þess að kyrrsetja þurfti flugvélar.

„Svissnesk flugumferð er lokuð fyrir allri umferð af öryggisástæðum eftir að tölvubilun varð hjá Skyguide, svissnesku flugumferðarstjórnarþjónustunni,“ sagði í yfirlýsingu frá Skyguide.

Ekki var gefið upp hver bilunin var nákvæmlega en sagt að fyrirtækið „harmi atvikið og afleiðingarnar fyrir viðskiptavinina, samstarfsaðila og flugfarþega á flugvöllunum í Genf og Zurich og er í óða önn að reyna að finna lausn á vandanum“.

Fyrr í morgun greindi flugvöllurinn í Genf frá því í tísti á Twitter að allar flugvélar hafi verið kyrrsettar til klukkan 9 í morgun vegna bilunar í tölvu.

Millilandaflugi á leið til Sviss verður beint til ítölsku borgarinnar Mílanó.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert