„Alvöru stríðsglæpur“ að hindra kornútflutning

Borrell segir óhugsandi að milljónir tonna af korni séu föst …
Borrell segir óhugsandi að milljónir tonna af korni séu föst í Úkraínu á meðan hungursneyð vofir yfir. AFP/JOHN THYS

Það, að Rússar komi í veg fyrir að hægt sé að flytja milljónir tonna af korni frá Úkraínu, er „alvöru stríðsglæpur,“ að sögn Josep Borrell, utanríkismálastjóra Evrópusambandsins. BBC greinir frá.

„Það er óhugsandi að milljónir tonna af korni séu föst í Úkraínu á meðan hungursneyð ríkir víða í heiminum,“ sagði Borrell eftir fund utanríkisráðherra ríkja ESB í Lúxemborg, þar sem staðan var rædd.

„Við krefjumst þess að Rússar opni hafnir Úkraínu,“ bætti hann við.

Lokun Rússa á höfnum Úkraínu við Svartahaf hefur gert það að verkum að korn hefur ekki komst á erlenda markaði og hungursneyð er yfirvofandi hjá tugum milljóna manna. Þá hefur matvælaverð hækkað mikið.

Verða gerðir ábyrgir

Borrell sagðist ekki geta ímyndað sér að Rússar haldi lokun hafnanna til streitu. Þeir yrðu gerðir ábyrgir ef þeir kæmu í veg fyrir að nauðsynlegar kornbirgðir frá Úkraínu kæmust á markað.

Rússar hafa haldið því fram að matvælaskortur og hækkandi verð í Mið-Austurlöndum og Afríku megi rekja til refsiaðgerða Vesturlanda í garð Rússa, en ríki ESB vísa því á bug.

„Ég fullyrði að það eru ekki refsiaðgerðir Evrópuríkja sem valda þessari krísu. Okkar refsiaðgerðir beinast ekki að matvælum eða áburði. Vandamálið er að Rússar koma í veg fyrir útflutning á úkraínsku korni.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert