EasyJet fækkar flugferðum

Flugfélögum og flugstöðvum hefur gengið erfiðlega að manna stöður.
Flugfélögum og flugstöðvum hefur gengið erfiðlega að manna stöður. AFP/Philippe Huguen

Breska flugfélagið EasyJet mun skera niður fjölda flugferða í sumar vegna manneklu en erfiðlega hefur gengið að fylla stöður eftir að samkomutakmörkum vegna Covid-19 heimsfaraldursins var aflétt. 

„Okkur þykir leitt að við munum ekki ná að veita þá þjónustu sem búist var við af okkur,“ sagði Johan Lundgren, framkvæmdastjóri EasyJet, um ákvörðunina. 

Manneklu er að gæta á flugvöllum víða um Evrópu og hefur hún orsakað niðurfellingar og tafir á flugferðum. Hefur ástandið þótt einstaklega slæmt á Schiphol flugvellinum í Amsterdam og á flugvöllum í London og Manchester, svo dæmi séu nefnd. Þá hafa verkföll einnig sett strik í reikninginn.

Heathrow flugvöllurinn við London hefur óskað eftir því að flugfélög dragi úr áætluðum flugferðum um 10% í dag vegna ófremdarástands í farangursmeðhöndlun. Þá hafa farþegar verið beðnir afsökunar á truflunum sem þeir hafa orðið fyrir á flugstöðinni undanfarna daga. Gatwick flugvöllurinn, sem einnig er við London, er einnig að glíma við svipað vandamál vegna manneklu og hefur gefið út að flugstöðin muni ekki ráða við jafn mikla umferð í sumar og gert var ráð fyrir. 

Easy Jet býst við að afkastageta flugfélagsins á þriðja ársfjórðungnum verði 87% af afkastagetu á sama tímabili árið 2019, eða fyrir heimsfaraldur. Þá er gert ráð fyrri að hún verði komin upp í 90% á síðasta ársfjórðungnum.

mbl.is