Felur í sér „áhættu“ fyrir Frakkland

Útlitið hefur verið betra fyrir Emmanuel Macron.
Útlitið hefur verið betra fyrir Emmanuel Macron. AFP

Flokkssystkin Emmanuels Macron Frakklandsforseta vinna nú að því að koma saman starfandi þingmeirihluta, í viðleitni til að bjarga öðru kjörtímabili hans eftir að meirihluti flokksins á þingi hrundi í þingkosningum. Niðurstaða þeirra var kunngjörð í gærkvöldi. 

Flokkur Macrons, Ensemble, fékk mest fylgi í kosningunum en hann vantar samt sem áður tugi þingsæta til þess að halda meirihluta á þingi. Þann meirihluta hefur flokkurinn átt síðustu fimm ár. 

Eru flokksmenn nú að leitast við að mynda nýjan meirihluta með því að semja við aðra hægriflokka. Vekur þetta upp óróa sem hefur ekki fundist í frönskum stjórnmálum undanfarin ár. 

Nýtt bandalag vinstriflokka náði sterkri kosningu og er útlit fyrir að bandalagið verði helsti stjórnarandstöðuflokkurinn á franska þinginu. Þá skilaði hægri öfgaflokkur Marine Le Pen sinni bestu kosningu á þingi frá upphafi. 

Felur í sér áhættu

„Þetta ástand felur í sér áhættu fyrir landið okkar miðað við þær áskoranir sem við þurfum að takast á við,“ sagði Elisabeth Borne forsætisráðherra Frakklands í yfirlýsingu í gær og bætti við:

„Við munum á morgun vinn að því að byggja upp starfhæfan meirihluta.“

Niðurstaða þingkosninganna dró mjög úr þeim sigri sem Macron vann í forsetakosningunum í apríl síðastliðnum þegar hann varð fyrsti Frakklandsforseti til þess að vinna annað kjörtímabil í meira en tvo áratugi. 

Kalla niðursöðurnar pólitíska lömun

„Þetta eru tímamót fyrir ímynd hans sem ósigrandi manns,“ sagði Bruno Cautres, fræðimaður við Miðstöð stjórnmálarannsókna Sciences Po háskóla í Frakklandi. 

Dagblaðið Le Monde sagði á vefsíðu sinni í gær að Macron stæði frammi fyrir hættu á „pólitískri lömun“. Hægrisinnaða dagblaðið Le Figaro sagði að niðurstöðurnar væru „nýtt andvana umboð“. Þá sagði í vinstrisinnaða dagblaðinu Liberation í morgun að niðurstöðurnar tákni „fall stjórnarhátta Macrons“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert