Lík fundust í skipaskurði

Einn leitarbátanna á Caland-skipaskurðinum eftir að vél feðganna hrapaði í …
Einn leitarbátanna á Caland-skipaskurðinum eftir að vél feðganna hrapaði í hann á hvítasunnudag, 5. júní. AFP/ANP

Tvö lík sem fundust um helgina í Caland-skipaskurðinum við hollensku borgina Rotterdam eru talin vera af norsku feðgunum Lars og Filip Haukeland, 58 og 15 ára gömlum, sem saknað hefur verið eftir að eins hreyfils smáflugvél þeirra hrapaði í skurðinn sunnudaginn 5. júní.

Feðgarnir tóku á loft frá Flesland-flugvellinum í Bergen sama morgun og er ekki ljóst hvenær vélin hafnaði í skipaskurðinum en að sögn hollenskra fjölmiðla var lögreglunni í Rotterdam tilkynnt um brak á floti þar um klukkan 19 téðan sunnudag.

Raunar sást til vélarinnar áður en hún fórst þar sem feðgarnir flugu inn í lokað loftrými milli Amsterdam og Rotterdam þar sem falast þarf eftir leyfi hollenskrar flugumferðarstjórnar áður en flogið er inn á svæðið. Hollensk lögregluþyrla var þá send á loft og þegar ekki náðist samband við flugmann norsku vélarinnar fékk þyrlan boð um að fljúga í veg fyrir vélina og fá hana til að breyta um stefnu. Flughraði vélarinnar frá Noregi var hins vegar of mikill til að lögregluþyrlan ætti roð í hana og komst þyrlan aldrei í námunda við vél feðganna.

Þurfa næði til að syrgja

Umfangsmikil björgunaraðgerð var þegar sett í gang en var þar við ramman reip að draga vegna sterkra strauma í skurðinum og mikillar umferðar stórra vöruflutningaskipa. Leituðu kafarar að flugvélinni með hjálp fjarstýrðra smákafbáta en allt sem kom upp úr kafinu var annar vængur flugvélarinnar og eitt björgunarvesti.

Aðstoðar norska lögreglan þá hollensku við að bera kennsl á líkin og segir May Britt Løvik, lögmaður fjölskyldunnar í Bergen, ættingja feðganna ákaflega þakkláta fyrir þá vinnu sem hollensk og norsk yfirvöld hafa lagt í málið. „Nú þarf fjölskyldan næði til að syrgja, fréttir síðustu daga hafa verið móður, eiginkonu og stórfjölskyldunni ákaflega þungbærar,“ segir Løvik við norska ríkisútvarpið NRK.

Eli Sture Handeland, skólastjóri Storetveit-grunnskólans þar sem drengurinn var í 9. bekk, undirbýr nú minningastund og segir atburðinn í Hollandi óraunverulegan. „Þetta hefur verið svo óraunverulegt, við höfum í raun bara verið að bíða. Á vissan hátt er það það besta af því versta að þeir séu fundnir og málinu ljúki þar með og hægt að hefja sorgarferlið,“ segir skólastjórinn við NRK.

Haukeland eldri var þaulvanur flugmaður og félagi í Flugklúbbi Bergen. Segir Andreas Haaland, formaður flugklúbbsins, að flugferð feðganna um hvítasunnuhelgina hafi verið þaulskipulögð.

NRK

NRKII (leitaraðgerðin)

Nu.nl (á hollensku)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert