Rússar vara Litháen við aðgerðum vegna Kalíngrad

Dimitry Peskov, talsmaður rússneskra stjórnvalda.
Dimitry Peskov, talsmaður rússneskra stjórnvalda. AFP

Rússland sendi frá sér viðvörun til Litháen í gær þess efnis að ef Litháen opnaði ekki aftur á vöruflutning til og frá Kalíngrad myndu Rússar grípa til aðgerða gegn Litháen til að gæta hagsmuna sinna. Kalíngrad er lítill hluti Rússlands við Eystrasalt sem deilir landamærum með Litháen og Póllandi. Fréttastofa Reuters greinir frá þessu.

Litháen er hluti af Atlantshafsbandalaginu (NATO) og eykur þetta því talsvert á viðvarandi spennu á milli Rússlands og NATO.

Í kjölfar innrásar Rússlands í Úkraínu lokaði Litháen á flutning þess varnings sem er tilgreindur í viðskiptabanni Evrópusambandsins inn og út úr rússneska svæðinu sem er skilið frá restinni af Rússlandi.

Hér má sjá hvernig Kaliningrad liggur á milli tveggja ríkja …
Hér má sjá hvernig Kaliningrad liggur á milli tveggja ríkja í Atlantshafsbandalaginu, Póllands og Litháen. mbl.is/Guðmundur Ingvarsson

Rússar hafa mótmælt þessu og segir talsmaður stjórnvalda í Rússlandi, Dimitry Peskov, ástandið vera mjög alvarlegt. Utanríkisráðherra Rússlands hefur kallað eftir því að Litháen opni fyrir flutning vara og segist líta á þetta sem árás á Rússland. 

Hafa stjórnvöld í Rússland tilkynnt að ríkið hyggst grípa til aðgerða gegn Eystrasaltsríkinu ef það fer ekki að vilja Rússa sem allra fyrst.

Utanríkisráðherra Litháen, Gabrielius Landsbergis, segir að þetta sé ekki undir Litháen komið heldur séu þetta þvinganir frá Evrópusambandinu.

mbl.is