Pútín kveðst stoltur

Pútin gengur á fund útskriftarnema úr herskóla.
Pútin gengur á fund útskriftarnema úr herskóla. AFP

Vladimír Pútín, forseti Rússlands, sagðist í dag vera stoltur af gjörðum rússneskra hermanna í Úkraínu.

„Við erum stolt af því að hermenn okkar berjast með hugrekki og fagmennsku, eins og sannar hetjur, meðan á sérstakri hernaðaraðgerð okkar stendur,” sagði Pútín í sjónvarpsávarpi frá fundi sínum með útskriftarnemum herskóla.

Þá sagði hann að Rússar myndu sigrast á refsiaðgerðum vestrænna ríkja. 

„Í ljósi nýrra ógna og áhættu, munum við þróa og styrkja herafla okkar enn frekar,“ sagði hann og lofaði að ný Sarmat-eldflaug yrði tekin í notkun fyrir lok árs.

„Það er enginn vafi á því að við verðum enn sterkari,“ bætti hann við.

Pútín sendi hermenn inn í Úkraínu þann 24. febrúar til að „af-hervæða“ og „af-nasistavæða“ landið.

mbl.is