Varar við alvarlegum afleiðingum

Nikolai Patrushev, yfirmaður öryggisráðs Rússlands.
Nikolai Patrushev, yfirmaður öryggisráðs Rússlands. AFP

Nikolai Patrushev, yfirmaður öryggisráðs Rússlands, varaði Litháa í dag við „alvarlegum“ afleiðingum vegna takmarkana sem litháísk stjórnvöld hafa sett á rússneskan vöruflutning í gegnum landið.

Litháen á aðild að Evrópusambandinu og Atlantshafsbandalaginu en refsiaðgerðir þeirra koma í veg fyrir flutning aðildarríkja á ýmsum vörum til og frá Rússlandi vegna stríðsins í Úkraínu.

Stjórnvöld í Rússlandi sökuðu Litháa um að banna flutning með lestum á vörum sem refsiaðgerðirnar snerta. 

„Rússland mun sannarlega bregðast við slíkum fjandsamlegum aðgerðum,“ sagði Patrushev á svæðisbundnum öryggisfundi í Kalíníngrad, rússnesku svæði sem liggur að Litháen og Póllandi. 

Þá bætti hann því við að „viðeigandi ráðstafanir“ vegna þessa séu í vinnslu og að til þeirra „verði gripið á næstunni.“

„Afleiðingar þeirra verða verulega neikvæðar fyrir Litháa,“ sagði Partushev, að því er rússneskir fjölmiðlar greina frá. 

Á ekki landamæri að Rússlandi

Utanríkisráðuneyti Rússlands kallaði Markus Ederer, sendiherra Evrópusambandsins í Moskvu á sinn fund vegna „and-rússneskra takmarkana“ á vöruflutningi á milli Kalíníngrads og meginlands Rússlands. Ráðuneytið telur að slíkar takmarkanir brjóti í bága við lög og skyldur Evrópusambandsins og að þær leiði til aukinnar spennu.

Eftir fundinn sagði Ederer að hann hafi óskað eftir því að rússnesk yfirvöld héldu ró sinni. 

Rússnesk stjórnvöld hafa krafist þess að kollegar þeirra í Litháen aflétti þegar í stað öllum takmörkunum en Litháar segja að þær hafi verið settar á í samræmi við refsiaðgerðir Evrópusambandsins gagnvart Rússlandi. 

Kalíníngrad á ekki landamæri að Rússlandi þótt svæðið sé rússneskt. Þar heldur Eystrasaltsfloti rússneska hersins sig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert