Bíða eftir því að hjarta fóstursins hætti að slá

Frá mótmælum vegna takmarkana á rétt kvenna til þungunarrofs. Myndin …
Frá mótmælum vegna takmarkana á rétt kvenna til þungunarrofs. Myndin er úr safni og tengist fréttinni því ekki með beinum hætti. AFP

Bandarísk kona óttast nú um líf sitt á Möltu eftir að fóstur sem hún ber undir belti er ekki lengur talið lífvænlegt. Fóstrið er þó ekki látið og var konunni því neitað um þungunarrof vegna strangra laga í kringum slíkt á Möltu.

„Hún er dauðhrædd,“ sagði Jay Weeldreyer, eiginmaður Andreu Prudente.

Hún hefur verið lögð inn á sjúkrahús á Möltu.

„Okkur líður eins og grimmileg og óvenjuleg refsing sé lögð á saklausa konu,“ sagði Weeldreyer.

Hjónin voru í fríi á Möltu þegar Prudente fór á sjúkrahús með miklar blæðingar á 16. Viku meðgöngu. Þá var í lagi með barnið en einum eða tveimur dögum síðar missti Prudente vatnið. Önnur ómskoðun sýndi að fylgjan hafði losnað að hluta frá leginu þó að hjartsláttur mældist enn hjá barninu. Það er þó ekki talið lífvænlegt.

Erfitt að komast frá Möltu

Vegna algjörs banns á Möltu við þungunarrofi muni læknar samt sem áður ekki grípa inn í.

„Þau eru að bíða eftir því að hjartað hætti að slá. Þau bíða eftir því að Andrea missi fóstrið eða eftir því að Andrea fái lífshættulega sýkingu,“ sagði Weeldreyer.

Hann óttast aftur á móti um líf konu sinnar ef hún fær sýkingu.

Tryggingafélag parsins hefur reynt að finna lausnir á málinu með því að skaffa flugferðir frá Möltu og til svæðis þar sem læknar eru tilbúnir í að grípa inn í. Weeldreyer segir aftur á móti að hættan á fósturláti á miðju flugi hafi orðið til þess að enginn vilji fljúga parinu frá Möltu.

mbl.is