Mörg börn farist og þörf á aukinni aðstoð

Mörg börn kunna að hafa farist vegna jarðskjálftans sem varð í Afganistan í gær, að sögn viðbragðsaðila. Hafa talíbanar kallað eftir aukinni alþjóðlegri aðstoð, en samskiptanet urðu illa úti.

„Við getum ekki náð til svæðisins, netkerfin eru of veik,“ sagði talsmaður talíbana.

Fleiri en 1.000 létust eftir skjálftann sem var 6,1 að stærð, en mikil rigning hefur hamlað björgunarsveitarmönnum.

Sameinuðu þjóðirnar eru á meðal þeirra sem ætla að útvega neyðarskýli og senda birgðir af mat til svæða í Paktika-héraði, sem hefur orðið einna verst úti.

Björgunarsveitarmenn og þeir sem komust lífs af hafa sagt BBC frá þorpum nálægt upptökum skjálftans sem eru gjöreyðilögð, skemmdum vegum og farsímaturnum. Þeir óttast að tala látinna muni hækka enn frekar.

Þorpsbúar ásamt björgunarsveitarmönnum í Paktika-héraði.
Þorpsbúar ásamt björgunarsveitarmönnum í Paktika-héraði. AFP

Missti 19 úr fjölskyldunni

Flest mannfallið hefur hingað til verið í Gayan- og Barmal-hverfum Paktika. Kona á sjúkrahúsi sagðist hafa misst 19 úr fjölskyldu sinni. „Sjö í einu herbergi, fimm í öðru, fjórir í öðru, svo þrír í öðru, allir hafa látist í fjölskyldu minni,“ sagði hún.

Ein sex barna móðir slasaðist illa í jarðskjálftanum og sagðist hafa misst sjö fjölskyldumeðlimi. „Við erum mjög fátæk. Við getum ekki byggt heimili okkar upp á nýtt,“ sagði hún.

Allar matarbirgðir fjölskyldunnar eru grafnar undir rústunum. „Ég krefst þess að talíbanar endurreisi húsin okkar.“

Afganistan er í miðri mannúðar- og efnahagskreppu og sagði Abdul Qahar Balki, háttsettur embættismaður talíbana, ríkisstjórnina vera fjárhagslega ófæra um að aðstoða fólkið eins mikið og á þarf að halda.

mbl.is