Sakfelldir fyrir að stela listaverki eftir Banksy

Verk Banksy við Bataclan tónlistarsalinn.
Verk Banksy við Bataclan tónlistarsalinn. AFP

Átta menn hafa verið sakfelldir fyrir stuld á listaverki eftir götulistamanninn Banksy. Listaverkið var á hurð tónlistarhússins Bataclan, til heiðurs fórnarlömbum árásar í Parísarborg árið 2015. 

Um er að ræða sjö Frakka og einn Ítala sem voru ákærðir fyrir að hafa fjarlægt hurðina úr byggingunni síðla dags í janúar árið 2019 og flutt hana svo til Ítalíu. 

Þrír mannanna, allir á þrítugsaldri, voru dæmdir í fangelsi, tveir til þriggja ára og einn til fjögurra ára. Þeim er þó heimilt að afplána refsinguna í stofufangelsi. 

Til minningar um hryðjuverkin 2015

Áætlað verðmæti listaverksins nemur 1,1 milljón Bandaríkjadala. Banksy vann verkið, sem er af ungri syrgjandi konu, til minningar um það þegar hryðjuverkasamtökin Ríki íslams gerðu árás á tónleikahúsið í nóvember 2015.  Um 130 manns létu lífið, þar af níutíu í tónlistarhúsinu.

Banksy er listamannsnafn dularfulls bresks götulistamanns, sem ferðast hefur um allan heim og skilið eftir sig listaverk á hinum ýmsu stöðum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert