Sorgardagur fyrir Bandaríkjamenn

Joe Biden Bandaríkjaforseti ávarpaði þjóðina fyrr í dag.
Joe Biden Bandaríkjaforseti ávarpaði þjóðina fyrr í dag. AFP/Mandel Ngan

Hæstiréttur Bandaríkjanna hefur gert hörmuleg mistök og tekið burt stjórnarskrárvarinn rétt Bandaríkjamanna. Dagurinn í dag er sorgardagur fyrir bæði landið og réttinn. Þetta kom fram í máli Joe Bidens Bandaríkjaforseta þegar hann ávarpaði þjóðina rétt í þessu.

Tilefnið var dómur Hæstaréttar Bandaríkjanna sem féll í dag en með honum var rétturinn til þung­un­ar­rofs í land­inu afnuminn og nærri hálfr­ar ald­ar gömlu dóma­for­dæmi snúið við, sem fólst í niður­stöðu rétt­ar­ins í máli Roe gegn Wade árið 1973.

Dóm­ur­inn hef­ur þá þýðingu að ein­stök ríki geta sjálf valið að leyfa eða leggja bann við þung­un­ar­rofi.

Öfgafull hugmyndafræði

Forsetinn var harðorður í ávarpinu og sagði niðurstöðu réttarins stefna heilsu og lífi kvenna í hættu. Taldi hann afnám réttar til þungunarrofs vera afleiðingu af öfgafullri hugmyndafræði.

Dómurinn hefur vakið mikla reiði en niðurstaðan var engu að síður viðbúin, þar sem gögnum var lekið í fjölmiðla í síðasta mánuði þar sem fram kom að fyrirhugað væri að heimila bann við þungunarrofi.

Biden hvatti mótmælendur til að mótmæla friðsamlega.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert