Telja samkynja hjónabönd í hættu

Niðurstaða hæstaréttar hefur vakið upp mikla reiði í Bandaríkjunum og …
Niðurstaða hæstaréttar hefur vakið upp mikla reiði í Bandaríkjunum og víðar. AFP/Olivier Douliery

Niðurstaða Hæstaréttar Bandaríkjanna í dag, um að snúa við nærri hálfrar aldar gömlu dómafordæmi, sem fólst í niðurstöðu réttarins í máli Roe gegn Wade, gæti dregið dilk á eftir sér og gætu fleiri réttindi verið í hættu að mati þeirra dómara sem skiluðu minnihlutaáliti í málinu. 

Hæstaréttardómarinn Clarence Thomas, sem greiddi atkvæði með því að fella úrskurðinn úr gildi, skilaði séráliti þar sem hann færði rök fyrir því að endurskoða þyrfti fleiri dóma sem m.a. fela í sér réttinn til aðgengi að getnaðarvörnum, réttinn til að vera í samkynja samböndum og samkynja hjónaböndum. Politico greinir frá.

Thomas hefur setið lengst af öllum dómurum við Hæstarétt Bandaríkjanna, eða frá árinu 1991, en það var forsetinn George H.W. Bush sem tilnefndi hann.

Tengja réttinn til þungunarrofs við önnur réttindi

Eftir að gögnum var lekið á vef Politico í maí, um að fyrirhugað væri að afnema réttinn til þungunarrofs, hafa margir lýst yfir áhyggjum af öðrum dómum sem svipa til Roe gegn Wade málsins og tryggja frelsi einstaklinga.

Stephen Breyer, Sonia Sotomayor og Elena Kagan, dómarar við hæstaréttinn, tóku öll undir þessar áhyggjur í séráliti sem var birt í dag. „Enginn ætti að treysta því að þessi meirihluti [hæstaréttar] hafið lokið verki sínu.“

„Stjórnarskrárbundinn réttur til fóstureyðinga stendur ekki einn. Þvert á móti hefur dómstóllinn í áratugi tengt hann við ákveðið frelsi sem felur í sér líkamlegt sjálfræði, fjölskyldusambönd og barneignir,“ segir í séráliti dómaranna.

Vill endurskoða fleiri mál

Í sérálitinu taldi Thomas tilefni til að endurskoða sambærileg fordæmisgefandi dóma og nefndi hann mál Griswold, Lawwrence, Obergefell.

Eiga dómsúrskurðirnar það allir sameiginlegt að vernda sjálfstæða ákvarðanatöku. Þau mál tryggðu aðgengi að getnaðarvörnum, réttinn til að eiga samkynja kynlíf og réttinn til að ganga í samkynja hjónaband.

mbl.is