Búist við miklum mótmælum

AFP

Búist er við miklum mótmælum á götum úti í Bandaríkjunum í dag, eftir að Hæstiréttur sneri við tímamótadóminum Roe gegn Wade og sló því föstu að konur ættu ekki stjórnarskrárvarinn rétt til þungunarrofs.

Ný lög sem banna þungunarrof hafa tekið gildi í að minnsta kosti sjö ríkjum Bandaríkjanna í kjölfar þessa – þar á meðal í Missouri-ríki. Engar undantekningar eru þar gerðar þótt sifjaspell eða nauðgun hafi orsakað þungunina.

AFP

Mótmæltu fyrir utan Hæstarétt í gær

Mótmælendur söfnuðust saman fyrir utan byggingu réttarins strax eftir úrskurðinn í gær og héldu uppi spjöldum þar sem ýmist stóð: „Þið hafið brugðist okkur“ eða „Skömm“ svo fátt eitt sé nefnt.

Aðrir glöddust. Á meðal þeirra var Gwen Charles sem sagði í samtali við fréttastofu AFP: „Þetta er dagurinn sem við höfum beðið eftir. Það er að byrja nýtt tímabil í menningu Bandaríkjanna,“ sagði hún. 

Í St. Louis mátti einnig sjá mótmælendur á götum úti en þeir söfnuðust saman fyrir utan síðustu læknastofuna í Missouri sem bauð upp á þungunarrof. 

„Þetta er óhugnanlegt,“ sagði Lilian Dodenhoff. „Maður hafði bara strax samband við þá sem þurfa helst á því að halda núna.“

Búist er við mótmælum vegna dóms Hæstaréttar.
Búist er við mótmælum vegna dóms Hæstaréttar. AFP
AFP
AFP
mbl.is