„Stórkostlegur“ fornleifafundur í Kanada

Talið er að fílsunginn hafi verið uppi fyrir um 35 …
Talið er að fílsunginn hafi verið uppi fyrir um 35 til 40 þúsund árum. Ljósmynd/Yfirvöld í Yukon

„Ég veit ekki hvernig ég á að höndla þetta allt núna, til að vera hreinskilinn. Þetta er stórkostlegt,“ segir dr. Grant Zazula, steingervingafræðingur yfirvalda í Yukon í Kanada.

Þannig lýsir hann í samtali við kanadíska ríkisútvarpið fornleifafundinum á þriðjudag, þegar ungur námuverkamaður var að grafa upp drullu með gröfu áður en hann rakst skyndilega á eitthvað allt annað.

Sá fyrsti í Norður-Ameríku

Hætti hann samstundis að grafa og hringdi í yfirmann sinn, sem kom samstundis á staðinn. Þegar þangað var komið lét hann stöðva námuvinnsluna undir eins.

Aðeins hálfri klukkustund síðar hafði Zazula fengið senda mynd af því sem fyrir augu bar.

Að hans sögn hafði námuverkamaðurinn ungi gert „mikilvægustu uppgötvun steingervingafræðinnar í Norður-Ameríku“.

Í leðjunni hafði leynst heill loðfílsungi, en aðeins einn annar slíkur hefur nokkurn tíma fundist, og um leið sá fyrsti til að finnast í Norður-Ameríku. Þá hefur aldrei áður fundist jafn vel varðveittur loðfíll í heimsálfunni.

Unginn í leðjunni.
Unginn í leðjunni. Ljósmynd/Yfirvöld í Yukon

Rani, rófa og eyru

„Hún er með rana. Hún er með rófu. Hún er með pínulítil eyru. Hún er með litla gripendann á rananum sem hún gat notað til að taka gras,“ segir Zazula.

„Hún er fullkomin og hún er falleg.“

Það þykir mikil heppni að fílsunginn hafi yfir höfuð fundist. Innan við klukkustund eftir að steingervingafræðingar voru mættir á staðinn varð allt svart, eldingum laust niður og himnarnir opnuðust með úrhellisdembu.

„Þannig að ef hún hefði ekki fundist fyrir þann tíma, þá hefði hún týnst í óveðrinu.“

Skjótur dauðdagi

Zazula telur að unginn, sem fengið hefur nafnið Nun cho ga, hafi verið um 30-35 daga gamall þegar hann drapst, fyrir líklega um 35 til 40 þúsund árum.

Unginn hafi líkast til verið örfáum skrefum frá móður sinni, en farið aðeins af leið og orðið fastur í leðjunni. Ekki hafi liðið á löngu þar til hann var kominn á bólakaf.

mbl.is