Árásarmaðurinn vill að yfirheyrsla sé opinber

Lögreglan reynir að yfirheyra árásarmanninn, sem varð tveimur að bana …
Lögreglan reynir að yfirheyra árásarmanninn, sem varð tveimur að bana á skemmtistað í Ósló í fyrrinótt. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Hinn 42 ára Zaniar Matapour, sem skaut tvo til bana á skemmtistaðnum London Pub í Ósló í gær, hefur verið ákærður fyrir morð, tilraun til manndráps og hryðjuverk. Hann vill ekki gangast undir yfirheyrslu, nema upptaka af yfirheyrslunni verði birt opinberlega. Fjöldi fólks særðist í árásinni. 

Matapour neitar að mæta í yfirheyrslur þar sem hann hefur ekki fallist á að þær verði teknar upp á myndband. Borge Enoksen, sem er á meðal þeirra sem flytja málið fyrir hönd ríkissaksóknara, sagði þetta á blaðamannafundi í dag. NRK greinir frá.

„Við virðum rétt hans til að gefa engar útskýringar. Á sama tíma verðum við að vinna innan ramma laganna. Við vinnum að því að fá hann til að tjá sig,“ sagði hann.

Viðbúnaður vegna hryðjuverka á hæsta stig

John Christian Elden, lögmaður Matapour, sagði að Matapour hefði áhyggjur af því að lögreglan myndi klippa myndbandið til eða setja það fram á ósanngjarnan hátt. „Umbjóðandi minn hefur neitað að vera tekinn upp, nema upptakan verði sýnd opinberlega.“ 

Lögreglan segir of snemmt að segja til um ásetning en telur margt benda til þess að um hatursglæp sé að ræða. Einnig sé mögulegt að um hryðjuverk sé að ræða. „Í augnablikinu er ekki útlit fyrir að glæpurinn hafi verið framinn í slagtogi við aðra en við getum að sama skapi ekki útilokað það,“ sagði Enoksen. 

Norska öryggisþjónustan hefur fært viðbúnaðarstig frá 3 upp 5, sem er hæsta stig, þar sem hún telur hættu á að árásin hafi verið hryðjuverk í nafni öfga-íslamstrúar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert