Ummæli Katrínar meðal þeirra sterkustu

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra Íslands.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra Íslands. AFP

Ummæli Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra í tengslum við dóm Hæstaréttar Bandaríkjanna, sem sneri við fordæmi í máli Roe gegn Wade, vöktu athygli bandarískra blaðamanna og rötuðu í grein New York Times um viðbrögð kvenleiðtoga heimsins.

Er þar bent á að Bandaríkin séu í hópi fárra þjóða sem þrengt hafa rétt kvenna til þungunarrofs, undanfarin ár, meðan þróunin í flestum öðrum ríkjum hafi verið sú gagnstæða. 

Jacinda Ardern, forsætisráðherra Nýja Sjálands, sagði dóminn fela í sér ósigur kvenna um allan heim. 

Nicola Sturgeon, fyrsti ráðherra Skotlands, lýsti deginum þegar dómurinn var upp kveðinn, sem myrkasta degi kvenréttindabaráttunnar á sinni lífstíð. 

Sterkustu ummælin frá leiðtogum Norðurlanda

Þá segir í fréttinni að sterkustu ummælin hafi komið frá kvenleiðtogum í norðurhluta Evrópu, og var þar fyrst vísað til ummæla Katrínar. 

„Á Íslandi, sem varð, árið 1980, fyrsta landið til þess að tefla fram konu í embætti lýðræðislega kjörins forseta, skrifaði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra á Twitter að hún væri vonsvikin og niðurbrotin í ljósi dómsins. „Við ættum að rýmka réttindi kvenna en ekki skerða þau,““ segir í fréttinni. 

Þá var einnig vísað til ummæla Magdalenu Andersson, fyrsta kvenkyns forsætisráðherra Svíþjóðar, sem lýsti niðurstöðu Hæstaréttar sem skrefi aftur á bak fyrir konur og stelpur í Bandaríkjunum. 

Utanríkisráðherra Svíþjóðar, Ann Linde, fullyrti að dómurinn svipti konur einstaklingsrétti sínum og Metta Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, kallaði ákvörðun Hæstaréttar „risavaxið bakslag.“ Anniken Huitfeldt, utanríkisráðherra Noregs, tók í sama streng. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert