Nöfn þeirra sem létust í skotárásinni

Krónprinsessa Noregs, Mette-Marit, kveikir á kerti til minningar um fórnarlömbin …
Krónprinsessa Noregs, Mette-Marit, kveikir á kerti til minningar um fórnarlömbin á minningarathöfn í gær. AFP

Þeir sem létust í skotárásinni í Ósló aðfaranótt laugardags hétu Jon Erik Isachsen (54 ára) og Kåre Arvud Hesvik (60 ára).

Þetta kom fram í fréttatilkynningu frá norsku lögreglunni í morgun, en 21 særðist. 

„Fínn náungi“. „Fjölskyldumaður“. Þannig lýsir Petter Høines, vinur Isachsen, honum, og bætir við að hreinlega öllum hafi líkað vel við hann.

„Hann hjálpaði þeim sem hann gat hjálpað,“ sagði hann við Verdens Gang og bætir við að Isachsen hafi verið mikill fjölskyldumaður.

Fjölskylda hans hafði þetta að segja um hann í fréttatilkynningu. „Hann var kærleiksríkur faðir sem við munum sakna sárt.“

Aðstoðarlögreglustjórinn Cecilie Lilaas-Skari (til vinstri) ásamt lögfræðingi lögreglunnar, Borge Enoksen, …
Aðstoðarlögreglustjórinn Cecilie Lilaas-Skari (til vinstri) ásamt lögfræðingi lögreglunnar, Borge Enoksen, á blaðamannafundi í Osló í gær vegna árásarinnar. AFP

„Eruð þið örugg?“

Á laugardagsmorgun sendi Adina Frigstad skilaboð til allra sem hún þekkti sem gætu hafa lent í árásinni. „Eruð þið örugg?“ spurði hún.

Svörin duttu inn hvert á fætur öðru en engin viðbrögð komu frá Kåre Hesvik.

„Þegar ég komst að því að hann væri dáinn varð ég algjörlega dofin og allt stöðvaðist," sagði Frigstad.

„Einhver skaut eina af vingjarnlegustu manneskjunum sem ég þekkti. Árásarmaðurinn hefur tekið í burtu yndislega manneskju frá svo mörgum sem elskuðu hann,“ bætti hún við.

Byggingin þar sem talið er að árásarmaðurinn hafi búið.
Byggingin þar sem talið er að árásarmaðurinn hafi búið. AFP

Frigstad segir að gleðigangan hafi átt sérstakan sess í huga Hesvik.

„Hann sagði alltaf að gleðigangan væri bæði vorið, aðfangadagskvöld og 17. maí (þjóðhátíðardagur Noregs), allt á sama tíma,“ sagði hún.

Þau tvö kynntust árið 2012 þegar Hesvik réð hana til starfa hjá Ósló-borg og urðu þau í framhaldinu góðir vinir.

„Sem yfirmaður sá hann alltaf til þess að fólk gæti fengið frí til að taka þátt í hátíðarhöldunum vegna gleðigöngunnar,“ sagði Frigstad. „Það eru ekki margir sem ég þekki sem hafa verið svona góðhjartaðir.“

Fjölskyldur Hesvik og Isachsen óskuðu eftir því að ljósmyndir af þeim yrðu ekki birtar í fjölmiðlum og virti VG ósk þeirra.

mbl.is