Samtök múslima fordæma árásina

Fórnarlambanna minnst í Ósló.
Fórnarlambanna minnst í Ósló. AFP/Håkon Mosvold Larsen

Samtök múslima í Noregi hafa fordæmt skotárásina í höfuðborginni Ósló aðfaranótt laugardags þegar tveir voru drepnir og 21 særðist.

Árásarmaðurinn er sagður hafa verið í samskiptum við þekktan, íslamskan öfgamann, Arfan Bhatti. Lögreglan skilgreinir árásina sem hryðjuverk.

„Svona árásir eiga sér engar rætur í islam. Það er óásættanlegt að hrifsa lífið af annarri manneskju. Sama hvort hún er samkynhneigð eða gagnkynhneigð,“ sagði Fahad Qureshi, leiðtogi Islam Net, í samtali við Aftenposten.

Hann óttast að atvik á borð við árásina um helgina gætu leitt til aukinnar andúðar og að slíkt gæti virkað sem olía á eldinn hjá þeim sem bera hatur í garð múslima.

„Alltaf þegar eitthvað þessu líkt gerist þá virkar það eins og nál beint í hjartastað. Þetta er enn sársaukafyllra núna vegna þess að ungir og upprennandi múslimar standa á engan hátt fyrir þessu,“ bætti hann við.

Lögreglan stendur vörð skammt frá staðnum þar sem árásin var …
Lögreglan stendur vörð skammt frá staðnum þar sem árásin var gerð. AFP

Í áfalli

Á facebooksíðu sinni spurði Qureshi hvort hægt hefði verið að koma í veg fyrir árásina.

Norska öryggislögreglan, PST, hafði vitað af árásarmanninum síðan árið 2015 og hitti hann meira að segja í síðasta mánuði eftir að hann hafði tekið þátt í mótmælum.

Formaður samtakanna Muslim Dialogue Network, Senaid Kobilica, skrifaði á facebooksíðu sína að hann væri í áfalli. Hann lýsti árásinni sem hafi verið gerð á saklaust fólk sem „grimmilegri“.

„Ég fordæmi harðlega morðin og árásina á saklausa borgara Ósló. Árás á einn er árás á okkur öll. Hugur minn er hjá fórnarlömbunum og ættingjum þeirra.“

mbl.is