Unglingarnir hrundu niður hver á fætur öðrum

Fjölskyldur hinna látnu hafa safnast saman fyrir framan barinn.
Fjölskyldur hinna látnu hafa safnast saman fyrir framan barinn. AFP

Enn er á huldu hvað orsakaði dauða 21 unglings á bar í borginni East London í Suður-Afríku aðfaranótt sunnudags. Engir áverkar voru á líkunum og segja lögregluyfirvöld því ólíklegt að troðningur hafi valdið dauða þeirra. Getgátur hafa verið uppi um að eitrað hafi verið fyrir unglingunum en það hefur ekki verið staðfest. BBC greinir frá.

19 fundust látin á staðnum, annað hvort á gólfinu eða liggjandi fram á borð. Tvö létust á sjúkrahúsi eða á leið þangað.

Réttarmeinafræðingar hafa rannsakað vettvanginn til að reyna að finna út hvað gerðist og gulur lögregluborði er nú strengdur í kringum barinn til að halda fólki frá svæðinu.

Gæti átt yfir höfði sér ákæru

Þau sem létust voru á aldrinum 13 til 17 ára en í fyrstu fréttum af málinu var sagt að hin látnu væru á aldrinum 18 til 20 ára. Frekari upplýsingar hafa ekki verið gefnar upp. Lágmarksdrykkjualdur er 18 ár í Suður-Afríku svo unglingarnir hefðu ekki átt að hafa fengið leyfi til að fara inn á barinn. Eigandinn barsins gæti því átt yfir höfði sér ákæru vegna málsins.

Ekki er vitað af hverju svo margir unglingar voru á staðnum á laugardagskvöld en eigandinn hefur sagt við fjölmiðla að unglingarnir hafi hafi verið að fagna próflokum og hafi komið á staðinn þegar partýi, sem þau höfðu verið í, lauk.

AFP

Dyraverðirnir áttu erfitt með að hemja fjöldann

Skemmtanastjóri á barnum sagði í samtali við BBC að hann hefði séð unglingana hrynja niður hver á fætur öðrum. Í fyrstu taldi hann að unglingarnir væru að líða út af vegna of mikillar áfengisneyslu en svo áttaði hann sig á því að sumir væru hættir að anda. Skemmtanastjórinn sagði jafnframt að dyraverðir hefðu átt erfitt með að hafa hemil á þeim mikla fjölda sem kom inn á barinn.

Fjölskyldumeðlimir hinna látnu hafa safnast saman fyrir framan barinn í þeirri von um að fá nýjar fréttir. Meðal þeirra er Xolile Malangeni. 17 ára gömul dóttir hans, Sinako, læddist út af heimili sínu á laugardagskvöld en sneri ekki aftur heim. „Hún sýndi mér svo mikla ást og hugsaði um mig í veikindum mínum,“ sagði Malangeni í samtali við BBC með tárin í augunum.

Lögregluborði hefur verið strengdur í kringum vettvanginn.
Lögregluborði hefur verið strengdur í kringum vettvanginn. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert