Maxwell dæmd í 20 ára fangelsi

Ghislaine Maxwell ásamt Jeffrey Epstein.
Ghislaine Maxwell ásamt Jeffrey Epstein. AFP

Ghislaine Maxwell hefur verið dæmd í 20 ára fangelsi í Bandaríkjunum fyrir að aðstoða bandaríska kynferðisafbrotamanninn og auðkýfinginn, Jeffrey Epstein, við að misnota ungar stúlkur.

Maxwell var í desember síðastliðnum sakfelld í fimm af sex ákæruliðum fyrir að útvega Epstein, þáverandi kærasta hennar, stúlkur undir lögaldri sem hann síðan braut á kynferðislega.

Epstein svipti sig lífi í fangaklefa í New York árið 2019 en hann beið þá eigin réttarhalda fyrir mansal.

Vonar að fórnarlömbin finni frið

Maxwell bað fórnarlömbin afsökunar fyrir utan réttarhöldin og sagðist hafa samúð með þeim en glæpir hennar áttu sér stað á árunum 1994 til 2004.

Fórnarlömbin Sarah Ransome og Elizabeth Stein fyrir utan réttarhöldin.
Fórnarlömbin Sarah Ransome og Elizabeth Stein fyrir utan réttarhöldin. AFP

Þá sagði hún það vera stærstu eftirsjá lífs hennar að hafa hitt Epstein og að hún vonaði að refsing hennar myndi leyfa fórnarlömbunum að finna frið.

Maxwell hefur verið í gæsluvarðhaldi síðan hún var handtekin í júlí 2020.

mbl.is