Segir Trump hafa reynt að taka í stýrið

Limmósína forseta Bandaríkjanna, en myndin er tekin í maí síðastliðnum.
Limmósína forseta Bandaríkjanna, en myndin er tekin í maí síðastliðnum. AFP

Donald Trump, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, reyndi að taka í stýrið á limmósínu öryggisgæslu sinnar, þegar hann sat í farþegasætinu, þar sem hann vildi vera með stuðningsmönnum sínum þann 6. janúar í fyrra, daginn sem árásin á þinghús Bandaríkjanna átti sér stað.

Þetta kom fram í vitnisburði fyrrverandi aðstoðarmanns framkvæmdastjóra Hvíta hússins en vitnaleiðslur fara nú fram um atburðinn fyrir rannsóknarnefnd fulltrúadeildar Bandaríkjaþings.

Donald Trump, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, birtist á skjá í vitnaleiðslunum.
Donald Trump, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, birtist á skjá í vitnaleiðslunum. AFP

Vildi fara í þinghúsið

Trump fór inn í bíl sinn eftir að hafa ávarpað stuðningsmenn sína á fundi nálægt Hvíta húsinu 6. janúar 2021, sagði Cassidy Hutchinson, en forsetanum var tjáð að hann gæti ekki gengið með stuðningsmönnum sínum að þinghúsinu þar sem þeir söfnuðust saman til að mótmæla.

„Ég er „effing“ forsetinn, farðu með mig í þinghúsið núna,“ mun Trump hafa sagt að sögn Hutchinson. En hún sagðist hafa heyrt söguna frá öðrum embættismanni.

Cassidy Hutchinson bar vitni í dag.
Cassidy Hutchinson bar vitni í dag. AFP

Vissu að ofbeldi gæti átt sér stað

Í máli Hutchinson kom einnig fram að Trump og sumir af æðstu liðsforingjum hans hefðu verið meðvitaðir um að ofbeldi gæti átt sér stað í kjölfar mótmælanna. Það er þvert á það sem sem hefur áður verið sagt, um að árásin hafi verið sjálfsprottin.

Hutchinson sagði að yfirmaður hennar, framkvæmdastjórinn Mark Meadows, hefði sagt fjórum dögum fyrir uppreisnina að eitthvað slæmt gæti gerst 6. janúar.

Þá sagði hún að Trump og Meadows hefðu verið meðvitaðir um að einhverjir stuðningsmenn Trump bæru vopn þennan dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina