Sprengdu upp fjölda hraðbanka

Hraðbanki.
Hraðbanki. AFP

Lögreglan í Hollandi, Belgíu og Þýskalandi hefur handtekið þrettán manns úr hollensku gengi sem sprengdi upp fjölda hraðbanka í Þýskalandi.

Löggæslustofnun Evrópusambandsins, Europol, greindi frá þessu.

Hópurinn var handtekinn frá mars til júní, þar á meðal í borginni Amsterdam í Hollandi og þýska bænum Meckenheim.

Gengið er talið tengjast 21 árás á hraðbanka með sprengiefni frá mars í fyrra þangað til í maí í ár. Stolið var 1,6 milljónum evra, eða um 225 milljónum króna, auk þess sem eyðileggingin af völdum sprenginganna nam yfir fjórum milljónum evra, eða um 560 milljónum króna.

„Löggæslustofnanir hafa auknar áhyggjur af sífellt meira magni af sprengiefnum sem glæpamenn nota til að komast yfir hraðbanka,“ sagði í yfirlýsingu frá Europol.

mbl.is