Verkfalli flugmanna hjá SAS frestað

Þota SAS lendir á Kastrup-flugvelli í janúar.
Þota SAS lendir á Kastrup-flugvelli í janúar. AFP

Ákveðið hefur verið að fresta verkfalli flugmanna hjá skandinavíska flugfélaginu SAS eftir að samningaviðræður á milli verkalýðsfélaga og fyrirtækisins voru framlengdar um þrjá sólarhringa.

Verkfallið hefði leitt til mikilla vandræða á meðal ferðamanna í Evrópu þar sem flugvellir og flugfélög hafa átt í vandræðum með að ráða fólk á nýjan leik eftir uppsagnir sem ráðist var í vegna kórónuveirufaraldursins.

SAS réðst í endurskipulagningu í febrúar eftir að hafa sagt upp þúsundum manna í faraldrinum. Flugfélagið aflýsti um fjögur þúsund flugferðum í sumar vegna skorts á starfsfólki.

Flugmennirnir segja að flugfélagið ætli að lækka launin þeirra um yfir 30 prósent og hótuðu að hefja verkfall sitt í dag.

AFP

Stjórnvöld í Skandinavíu hafa lagt sitt af mörkum til að hjálpa SAS.

Danska ríkisstjórnin kveðst tilbúin til að auka hlut sinn í flugfélaginu um allt að 30 prósent og afskrifa skuldir fyrir 3,5  milljarða danskra króna, eða um 67 milljarða króna.

Sænska ríkisstjórnin hefur hafnað því að setja meira fjármagn inn í SAS en segist tilbúin til að leggja það til við þingið að flugfélaginu verði leyft að breyta skuldum þess við ríkið í eigið fé.

Norðmenn, sem drógu sig út úr SAS fyrir fjórum árum síðan, sögðust í gær vera tilbúnir til að eignast aftur hlut í flugfélaginu með því að leyfa því að breyta skuldum í hlutabréf.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert