Rússar hafi yfirgefið Snákaeyju

Snákaeyja í Svartahafi.
Snákaeyja í Svartahafi. AFP/Gervihnattamynd ©2022 Maxar Technologies

Rússar hafa tilkynnt að þeir hafi dregið til baka herlið sitt frá Snákaeyju í Úkraínu. Segja þeir þetta vera gert til þess að sýna velvild svo Úkraínumenn geti flutt út landbúnaðarvörur.

„Þann 30. júní, sem tákn um velvild okkar, hefur rússneski herinn dregið til baka setulið sem lokið hefur verkefni sínu á Snákaeyju,“ segir í tilkynningu frá varnarmálaráðuneyti Rússlands.

Tilkynningin kom eftir að Úkraínumenn gerðu þó nokkur áhlaup á hermenn Rússa á eyjunni.

Varnarmálaráðuneyti Rússlands sagði í tilkynningunni að þau væru að sýna heiminum að „Rússland er ekki að hindra vinnu Sameinuðu þjóðanna til þess að að skipuleggja flutning á landbúnaðarvörum frá Úkraínu í mannúðarskini.“

Yfirvöld í Kreml segja að „boltinn sé núna hjá Úkraínu“.

Úkraína hefur áður ásakað Rússa um að stela frá sér korni og með því stuðlað að matvælaskorti á heimsvísu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert