Tíu flugskeytum skotið samtímis

Volodimír Selenskí, forseti Úkraínu, sagði í ávarpi sínu í nótt að árásin á borgina Míkolaív, „þar sem tíu flugskeytum var skotið samtímis, öllum að almennum borgurum,“, sýni „heiminum öllum“ að „þrýstingur á Rússa er ekki nægur.“

Þá bætti Selenskí því við að „mjög hagnýtt skref“ hafi verið tekið í átt að aðild Úkraínu að Evrópusambandinu með undirritun samkomulags sem gerir úti um hindranir fyrir úkraínsk flutningafyrirtæki.

Rússneskar hersveitir réðust inn í Úkraínu 24. febrúar síðastliðinn. Hafa þær valdið verulegri eyðileggingu í landinu og sent milljónir manna á flótta. 

Útlit er fyrir að markmið Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta sé enn að ná eins miklu landsvæði í Úkraínu og mögulegt er. Aftur á móti hafa hersveitir hans veiklast verulega að undanförnu og því telja bandarísk stjórnvöld að þær séu einungis færar um mjög rólega landvinninga.

Það þýðir að stríðið gæti varað í lang­an tíma, að sögn Avril­ar Haines, yf­ir­manns banda­rísku leyniþjón­ust­unn­ar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert