Ísland var innblásturinn

Selma Johanne Bahner er ungur listamaður sem gengið hefur gegnum …
Selma Johanne Bahner er ungur listamaður sem gengið hefur gegnum ýmislegt í lífinu, hlustar á black metal, afgreiðir á bar í Tønsberg og á málverk sem hangir uppi á vegg í Akershus-kastalanum í Ósló. Eitt verka hennar er sérstaklega innblásið af Íslandi. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

„Ég fæddist í Ósló en bjó reyndar bara þar í níu mánuði áður en fjölskyldan flutti til Fyresdal í Telemark,“ segir Selma Johanne Bahner, 23 ára gamall listmálari og barþjónn í Tønsberg í Noregi, sem þrátt fyrir ungan aldur hefur vakið verðskuldaða athygli í listaheiminum og hangir jafnvel eitt verka hennar uppi á vegg í Akershus-kastalanum í Ósló til minningar um fornar hetjur andspyrnuhreyfingar Noregs á stríðsárunum.

Bahner er mikill Íslandsvinur, hefur reyndar aldrei komið til Íslands, en eitt verka hennar, sem hangir uppi á vinnustað hennar, þungarokksbarnum Karma í Tønsberg, sækir innblásturinn til lands elds og ísa sem upphaflega var tilefni þess viðtals er hér birtist.

Skírð í höfuð sæskrímslis

„Reyndar heiti ég Selma eftir sæskrímsli í norskum þjóðsögum sem sagt er hafa haldið til í nágrenni við Fyresdal,“ segir Bahner af nafni sínu og brosir í kampinn þar sem við sitjum á vinnustað hennar, Karma, í miðbæ Tønsberg, síðdegis í gær í glampandi sól og blíðviðri.

Bahner við málverk sitt á rokkbarnum Karma en verkið segir …
Bahner við málverk sitt á rokkbarnum Karma en verkið segir hún innblásið af íslenskri náttúru. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Hún bjó í Fyresdal fram til tíu ára aldurs og minnist æskudaganna með blendnum tilfinningum vegna vandamála heima fyrir sem við getum ekki tíundað hér. Bahner endaði að lokum á fósturheimili í Ósló sem unglingur þegar norsk barnaverndaryfirvöld gripu inn í heimilislífið.

„Ég var ekkert yfir mig hrifin af þessu fósturheimili svo ég flutti til Englands þegar ég varð sjálfráða,“ segir Bahner sem hélt til smábæjar skammt frá Newcastle í breska heimsveldinu og hóf þar nám. „Þar bjó ég í tvö og hálft ár, flutti út 2017 og var í þremur störfum, vann á bar, kaffihúsi og sveitabæ. Svo skellti ég mér í nám í enskum bókmenntum, myndlist og sviðslistum,“ heldur Bahner frásögn sinni áfram og lætur vel af dvölinni.

Hrífst af Sólstöfum og Sigur Rós

„Það var líklega þarna sem mér skildist að myndlistin yrði mínar ær og kýr í lífinu. Ég gat staðið tímunum saman og málað, einu sinni málaði ég heilan dag og hlustaði á sama lagið allan tímann, Avalanche með Leonard Cohen,“ rifjar Bahner upp sem annars hrífst mjög af tónlistarstefnunni black metal eða svartmálmi og kann vel að meta íslensku sveitina Sólstafi, „en ég hlusta líka mikið á Sigur Rós, það er frábær sveit,“ bætir hún við.

Einbeitt listakona við störf.
Einbeitt listakona við störf. Ljósmynd/Aðsend

Hún sneri til baka til Noregs og hóf þá störf í kirkjugarðinum Østre gravlund í Ósló, plantaði jurtum og sinnti almennum garðyrkjustörfum og viðhaldi garðsins. „Ég er svo heilluð af kirkjugörðum, þeir standa fyrir svo mikla hringrás, látið fólk er jarðsett þar og hverfur til baka til moldarinnar sem það kom af og gróðursetning plantna einkennist af nánast sömu hringrás, fæðingu og dauða, lífinu og svefninum langa,“ segir þessi húðflúraða svartmálmsstúlka og blaðamaður bíður þess eins að dökkgrá ský byrgi sólar sýn og einhvers konar ragnarök hefjist þennan fagra dag í Tønsberg. Ekkert gerist þó.

Bahner bak við barborðið við drynjandi þungarokkstóna úr hljóðkerfi Karma …
Bahner bak við barborðið við drynjandi þungarokkstóna úr hljóðkerfi Karma þar sem enginn veit sitt karma. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

„Ég þjáist líka af áfallastreitu eftir þessa æsku sem ég átti, hún var svo sem enginn dans á rósum,“ játar listakonan og lítur hugsandi út í sólina. „Svo flutti ég bara hingað til Tønsberg árið 2020 með hundinn minn, hann þoldi ekki að vera í Ósló blessaður og ég er mjög ánægð hér, þetta er svo notalegur bær. Þá var ég kominn inn í listaskóla í Ósló sem reyndar týndi umsókninni minni og svaraði mér ekki fyrr en ári seinna. Þá fékk ég að vita að ég væri komin með skólavist,“ segir Bahner sem þá fór reglulegar ferðir með lestinni frá Tønsberg til Óslóar til að sækja skólann. Hundurinn fór með enda leyfði skólinn dýrahald í tímum svo allt smellgekk upp.

Óræður og myrkur þokki

Bahner er mikil náttúrumanneskja og heilluð af lífkerfum móður náttúru. Þaðan spratt einlægur áhugi hennar á íslenskri náttúru og sem fyrr segir er málverk eftir hana sem hangir á vegg Karma innblásið af Íslandi. Sýnir það manneskju skrýdda dökkum kufli í auðnarlegu landslagi og þótt blaðamaður hafi áhuga við frostmark á myndlist verður það að viðurkennast að verkið býður af sér undarlegan, óræðan og myrkan þokka. Fyrsta myndlistargagnrýnin hér með komin á prent. Aldrei fór það svo.

Bahner kemur víðar við í listsköpun sinni en á olíu …
Bahner kemur víðar við í listsköpun sinni en á olíu og striga. Ljósmynd/Aðsend

„Já, það var Ísland sem blés mér þessu verki í brjóst, auðn og ósnortin náttúra, einhver undarlegur frumkraftur sem er svo heillandi,“ segir Bahner, „hugsunin um aftakaveður þar sem rokið er slíkt að regndroparnir stingast eins og hnífar í húðina. Tilfinning sem kemur þér í skilning um að þú ert á lífi,“ segir hún heilluð og minnir blaðamann á hve lítið hann saknar íslenskrar veðráttu.

„Ég veit ekkert hver þessi manneskja er á myndinni, hún kom bara óvart og undir lokin. Ég vildi einkum festa þessa auðn í náttúrunni á mynd, hún er svo sterk. Eins er gaman að segja frá því að rammann hannaði maður sem heitir Helmund Torbergsen og hann er afi fyrrverandi kærastans míns, kemur frá Mehamn í Norður-Noregi, þú kemst ekki norðar hérna í landinu,“ segir Bahner.

Málverk af Manus í Akershus

Hún rifjar upp þá auðn sem nasistar sköpuðu í þeim landshluta meðan á landnámi þeirra stóð í síðari heimsstyrjöldinni, heilu bæirnir voru brenndir til grunna í Norður-Noregi, til dæmis Hammerfest sem Þjóðverjar brenndu áður en hernámsliðið yfirgaf bæinn í febrúar 1945. Stóð þá aðeins ein útfararkapella, byggð 1937, eftir af öllum bænum. Þessir gömlu atburðir færa okkur að lokaumræðuefni viðtalsins, málverki Bahner af andspyrnuhreyfingarhetjunni Max Manus, fullu nafni Maximo Guillermo Manus, frá Bergen.

Málverkið af andspyrnuhreyfingarhetjunni frá Bergen sem hangir á vegg í …
Málverkið af andspyrnuhreyfingarhetjunni frá Bergen sem hangir á vegg í Akershus-kastalanum í Ósló. Max Manus tilheyrði Kompani Linge, einni nafntoguðustu sveit norsku andspyrnuhreyfingarinnar. Ljósmynd/Aðsend

Manus tilheyrði annáluðustu herdeild norsku andspyrnuhreyfingarinnar, Kompani Linge, eða NORIC-1, sem dró nafn sitt af stjórnanda sínum, leikaranum Martin Jensen Linge, sem féll í bardaga við Þjóðverja á Måløy 27. desember 1941.

„Ég málaði málverkið af Manus eftir ljósmynd af honum,“ segir Bahner. „Á málverkinu liggur hann í fósturstellingu í jarðvegi sem gæti vel verið mold en táknar líka þá stöðu að liggja með andlitið á kafi í drullu á mestu átakastundum lífsins sem hernámsárin voru mörgum hér í Noregi,“ útskýrir listakonan unga.

Gestur á Karma, norskur hermaður sem hafði verið í Afganistan og víðar, veitti málverkinu athygli og sýndi áhuga á að hengja það upp á veitingastað fyrrverandi hermanna í Akershus-kastalanum í Ósló og þar hangir þetta verk Bahner í dag.

Málverk Bahner sem gæti sýnt móður vakandi yfir sjúku barni …
Málverk Bahner sem gæti sýnt móður vakandi yfir sjúku barni sínu, hjúkrunarkonu með sjúklingi eða bara eitthvað allt annað. Hver veit? Ljósmynd/Aðsend

Fiskar í uppáhaldi

Bahner kveðst vonast til að lifa af listsköpun sinni í framtíðinni og á von á að halda sýningu í galleríi á Nøtterøy, nágrannaeyju og -sveitarfélagi Tønsberg í haust, sem heitir Sneaky Art og bindur vonir við að hún gangi vel. „Ég er með mjög margt í gangi núna, mörg málverk, og þetta verður spennandi. Mér finnst líka einstaklega gott að búa hérna í Tønsberg, hér gerist ótrúlega margt og þetta er svo skemmtilegur bær,“ segir listakonan Selma Johanne Bahner að lokum og blaðamaður er henni innilega sammála.

Við látum að lokum eina undarlega staðreynd úr lífi svartmálmsaðdáandans myndræna fylgja með til fróðleiks. „Já, ég „deita“ bara fiska,“ segir Bahner hlæjandi og á þar við stjörnumerkið, ekki dýrategundina.

Bahner þjáist af áfallastreitu eftir stormasama æsku og kann vel …
Bahner þjáist af áfallastreitu eftir stormasama æsku og kann vel við sig í Tønsberg en í nágrannasveitarfélaginu Færder stendur sýning verka hennar fyrir dyrum á haustdögum. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson
mbl.is