Tölvuárás reyndist góð fjárfesting

Verðhækkanir á bitcoin urðu til þess að skólinn fékk hálfa …
Verðhækkanir á bitcoin urðu til þess að skólinn fékk hálfa milljón evra til baka. AFP

Hollenskur háskóli sem varð fyrir tölvuárás borgaði tölvuþrjótum 200 þúsund evrur í bitcoin árið 2019. Þessum fjármunum var skilað í dag og rúmlega það.

Lögregluyfirvöld í Hollandi endurheimtu hluta af bitcoin rafmyntinni sem skólinn borgaði tölvuþrjótunum, en vegna verðhækkana bitcoin fær skólinn um 500 þúsund evrur til baka tveimur árum seinna.

Háskólinn í Maastricht varð fyrir tölvuárás þar sem tölvuþrjótar tóku vefþjóna skólans í gíslingu.

Verðmætin þrettán földuðust

Í kjölfarið kröfðust þeir að fá 200 þúsund evrur borgað í lausnargjald, sem skólinn féllst á viku seinna. Persónuupplýsingar og viðkvæm gögn voru á vefþjónum skólans.

Hollenska lögreglan rakti peningaslóðina, sem bitcoin skilur eftir sig, og fundu lausnargjaldið í fórum manns í Úkraínu sem þekktur er fyrir peningaþvætti.

Yfirvöld lögðu hald á reikning mannsins sem innihélt mismunandi rafmyntir, þar á meðal hluta af bitcoin rafmyntinni sem skólinn lét tölvuþrjótana fá. Verðmæti þess hluta hafði nær þrettán faldast úr 40 þúsund evrum í nú 500 þúsund evrur.

Skólinn ætlar að nota fjármunina til þess að styðja við bakið á efnaminni nemendum.

Verð á bitcoin hefur hríðfallið í ár.
Verð á bitcoin hefur hríðfallið í ár. OZAN KOSE
mbl.is