Hákarl varð tveimur að bana

Við strönd Rauðahafsins.
Við strönd Rauðahafsins. AFP

Tvær konur létust í hákarlárás i ferðamannabæ við Rauðahafið í Egyptalandi að sögn umhverfisráðuneytisins þar í landi.

„Hákarl réðst á tvær konur þegar þær voru að synda,“ skrifaði ráðuneytið á Facebook og bætti við að þær hefðu báðar látist en gaf ekki frekari upplýsingar um konurnar.

Á föstudag barst þó fyrirskipun frá yfirvöldum í landinu um að öllum ströndum svæðisins yrði lokað í þrjá daga eftir að austurrískur ferðamaður missti handlegg í því sem virðist hafa verið hákarlaárás.

Starfshópur vinnur nú að því að greina vísindalegar orsakir og aðstæður árásarinnar og ákvarða ástæðurnar á bak við hegðun hákarlsins sem leiddi til atviksins, að sögn umhverfisráðuneytisins.

Ráðast sjaldan á fólk

Rauðahafið er vinsæll ferðamannastaður þar sem hákarlar eru algengir en ráðast þó sjaldan á fólk á sundi. 

Árið 2018 var tékkneskur ferðamaður drepinn af hákarli við Rauðahafsströnd. Sambærileg árás varð 2015 þegar hákarl varð þýskum ferðamanni að bana.

Árið 2010 urðu fimm hákarlárásir á fimm dögum og lést einn breskur ferðamaður. Árásirnar áttu sér stað óvenju nálægt strönd ferðamannastaðarins Sharm el-Sheikh.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert