Hefði verið inni ef hann hefði lagt fyrr af stað

Þegar Björn mætti fyrir utan verslunarmiðstöðina Fields blasti við honum …
Þegar Björn mætti fyrir utan verslunarmiðstöðina Fields blasti við honum fjöldi fólks að flýja svæðið. Olafur Steinar Gestsson / Ritzau Scanpix / AFP

Björn Bergsson var að hjóla að verslunarmiðstöðinni Field's til að stunda þar líkamsrækt þegar að skotárásin þar átti sér stað. Hann býr í 300 metra fjarlægð frá miðstöðinni og að hans sögn munaði litlu að hann hefði verið í verslunarmiðstöðinni þegar að skotárásin átti sér stað.

Björn segist hafa heyrt í sírenum þegar að hann hafi verið að leggja af stað í átt að verslunarmiðstöðinni en að það hafi aldrei hvarflað að honum að um svo hræðilegan atburð hafi verið að ræða.

„Þetta var nýbúið að gerast þegar ég kem að verslunarmiðstöðinni, þá sé ég fólk koma grátandi úr verslunarmiðstöðinni og ein lýsti atburðarásinni fyrir mér hágrátandi.“

Björn segir að hann hafi þá séð hátt í hundrað viðbragðsbíla á svæðinu frá lögreglu, sérsveit og fleiri viðbragðsaðilum.

„Sem betur fer var ég ekki komin inn í verslunarmiðstöðina en ég var á leiðinni þangað. Hefði ég verið hálftíma fyrr af stað hefði ég verið inni.“

Kemst ekki aftur heim

Ákvað Björn þá að halda til baka í íbúðina sína en hafi þá komist að því að hún væri inn á svæðinu sem lögreglan er búin að loka af. Ákvað hann þá að yfirgefa íbúðina og koma sér út af afgirta svæðinu til að gæta fyllsta öryggis. 

„Það var ekkert vesen að komast út af svæðinu en það er ekki hægt að komast aftur inn fyrir,“ segir Björn og segist ætla bíða eins lengi og það þarf þangað til að lögreglan metur svæðið sem öruggt. „Maður bíður bara þolinmóður eftir fyrirmælum lögreglu.“

Hann segir að enn þá sé allt lokað og lögregla og sérsveitin á svæðinu í mikilli viðbragðsstöðu. „Mér líður núna eins og fólk sé aðeins að ná að jafna sig,“ segir Björn og vonar innilega að þetta mál sé búið.

Hér fyrir neðan má sjá myndir sem Björn tók stuttu eftir að skotárásin átti sér stað.

Ljósmynd/Aðsend
Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert