Íslendingur við Field's greinir frá miklum viðbúnaði

Að minnsta kosti þrjú skot heyrðust.
Að minnsta kosti þrjú skot heyrðust. Olafur Steinar Gestsson / Ritzau Scanpix / AFP

Einar Jóhannes Guðnason býr rétt hjá verslunarmiðstöðinni Field's Ama­ger í Kaupmannahöfn þar sem var hleypt af minnsta kosti þremur skotum í dag. Hann segir að svæðið sé umkringt af þungvopnaðri lögreglu.

Einar var í lest á leið heim til sín er árásin varð og segir í samtali við mbl.is að lögreglan hafi girt af stórt svæði í kringum Field's.

„Nágranni okkar sendi okkur skilaboð og spurði hvort við vissum hvað væri í gangi þar sem það væri fullt af lögreglu bílum og þyrlum yfir svæðinu.“

Hann segir að enginn komist að svæðinu og fullt af fólki standi og bíði eftir að komast í bíla sína sem eru á bílastæðinu. 

Olafur Steinar Gestsson / Ritzau Scanpix / AFP

Einar segir að fullt af einkennisklæddum og óeinkennisklæddum séu á svæðinu. Þá er gríðarlega mikið af sjúkrabílum, „bara á fimm mínútum sáum við örugglega sex eða sjö bíla keyra í áttina og fjóra til fimm fara frá Field's.“

Hann segir að hann hafi farið út að borða í hádeginu ásamt vinum og hafði svo ætlað að fara í Field's seinnipartinn í dag. 

Einar sá fjölmarga sjúkrabíla.
Einar sá fjölmarga sjúkrabíla. Olafur Steinar Gestsson / Ritzau Scanpix / AFP
mbl.is