Örplast finnst í auknum mæli í líffærum manna

Milljónir tonna af plasti er framleitt á hverju ári.
Milljónir tonna af plasti er framleitt á hverju ári. AFP

„Við gátum ekki ímyndað okkur fyrir tíu árum að það yrði svona mikið af örplasti sem við getum séð, það er alls staðar,“ sagði Jean-Francois Ghiglione, sem rannsakar örverur í sjónum við rannsóknarstofu í Frakklandi, í viðtali við AFP-fréttaveituna. 

Milljónir tonna af plasti er framleitt á hverju ári, að mestu úr jarðefnaeldsneyti, sem berst út í umhverfið og brotnar síðan niður í smærri hluta. 

„Við sáum ekki fyrir að við myndum finna örplastið í mannslíkamanum,“ sagði Ghiglione.

Örplastið finnst nú í auknum mæli í líffærum manna svo sem lungum, milta, nýrum og jafnvel fylgjum.

Meðal annars berst örplastið í líkamann í gegnum öndunarveginn, sérstaklega frá örplasti sem er á fatnaði gerður úr gerviefnum. 

„Við vitum að það er örplast í loftinu, það er alls staðar í kringum okkur,“ sagði Laura Sadofsky sem stundar rannsóknir við læknaháskólann í Hull í Bretlandi. 

„Það sem kemur okkur á óvart er hversu djúpt í lungunum örplastið er og stærðin á því,“ sagði hún við AFP.

Greiðslukort á viku

Rannsókn sem var gerð árið 2019 sýndi að fólk innbyrgði um fimm grömm af plasti á viku, það er nóg til að búa til greiðslukort. 

Niðurstöður úr annarri rannsókn sýndi í fyrsta skipti örplast í blóði. Fá sýni voru þó tekin og segja rannsakendur því of snemmt að draga ályktanir, en ef örplast er í blóðinu gæti það borist í öll líffæri. 

Í fyrra fannst örplast í bæði fylgjuvef móður og fósturs sem gæti síðan haft áhrif á þroska barnsins.

„Það gæti verið stórt vandamál, en við höfum ekki vísindaleg gögn til þess að staðfesta hver áhrifin eru, ef þau eru einhver,“ sagði Bart Koelmans, prófessor í haffræði við Wageningen-háskóla. 

Ein kenning er að örplastið gæti verið ástæða ákveðinna heilkenna sem hafa áhrif á heilsu manna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert