Flugmenn SAS fara í verkfall

Flugmenn SAS munu fara í verkfall eftir að viðræður við …
Flugmenn SAS munu fara í verkfall eftir að viðræður við flugfélagið runnu út í sandinn. AFP

Flugmenn skandinavíska flugfélagsins SAS munu fara í verkfall eftir að viðræður stéttarfélags þeirra við flugfélagið runnu út í sandinn. Þetta staðfestir forstjóri flugfélagsins.

Fyrir helgi var greint frá því að verkfalli flugmanna hefði verið frestað eftir að samningaviðræður milli verkalýðsfélaganna og SAS voru framlengdar um þrjá sólarhringa.

Faraldurinn lék félagið illa

Verkfall flugmannanna hefur verið yfirvofandi frá því í byrjun júní, en þá var greint frá því að þeir íhuguðu að beita verkfallsrétti sínum í lok mánaðarins. Á sama tíma hefur SAS glímt við slæma fjárhagsstöðu, en félagið var illa leikið af heimsfaraldrinum. Þannig nam tap félagsins á öðrum ársfjórðungi þessa árs um 1,5 milljörðum sænskra króna, eða um 19,6 milljörðum íslenskra króna.

Flugfélagið réðst í endurskipulagningu á rekstri sínum í febrúar eftir að hafa sagt upp fimm þúsund starfsmönnum, eða um 40% starfsmanna, í faraldrinum. Einnig var um fjögur þúsund flugferðum aflýst í sumar vegna skorts á starfsfólki.

Norðmenn tilbúnir að eignast aftur hlut

Þá hefur sænska ríkisstjórnin ákveðið að halda ekki áfram að veita flugfélaginu fjármuni og ætlaði að draga úr hluti sínum í félaginu. Svíþjóð og Danmörk eru stærstu hluthafar SAS með 21,8% hlut hvort land.

Danska rík­is­stjórn­in kveðst hins vegar til­bú­in til að auka hlut sinn í flug­fé­lag­inu um allt að 30 pró­sent og af­skrifa skuld­ir fyr­ir 3,5 millj­arða danskra króna, eða um 67 millj­arða króna.

Norðmenn, sem drógu sig út úr SAS fyr­ir fjór­um árum síðan, sögðust fyrir helgi vera til­bún­ir til að eign­ast aft­ur hlut í flug­fé­lag­inu með því að leyfa því að breyta skuld­um í hluta­bréf.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert