Tveir breskir ráðherrar sögðu af sér

Hér má sjá Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands með Sajid Javid, …
Hér má sjá Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands með Sajid Javid, fyrrverandi heilbrigðisráðherra, á vinstri hönd og Rishi Sunak, fyrrverandi fjármálaráðherra, á þeirri hægri. AFP

Bæði heilbrigðisráðherra og fjármálaráðherra Bretlands sögðu af sér í dag í mótmælaskyni. Eru ráðherrarnir ósáttir með forsætisráðherrann Boris Johnson.

Ráðherrarnir sögðu af sér í kjölfar þess að Chris Pincher var vikið úr Íhaldsflokknum í Bretlandi eftir ásakanir um að hafa þuklað á tveimur karlmönnum á fylleríi. Að mati ráðherranna var málið illa meðhöndlað af Johnson og eru þeir ósáttir við að Johnson hafi ráðið Pincher sem varaþingflokksformann þrátt fyrir að vita af fyrri ásökunum gegn honum.

Þar að auki hafa mörg hneykslismál komið upp undanfarið og má reikna með að það spili að auki inn í ákvörðun ráðherranna. Til dæmis var vantrauststillaga lögð fram á hendur Johnson í kjölfar hneykslismáls í tengslum við veisluhöld í Downingstræti á meðan strangar sóttvarnareglur voru við lýði. Greiddu 41,2 prósent íhaldsmanna atkvæði gegn honum og var því vantrauststillagan felld þó að litlu hefði mátt muna.

Tapaði traustinu

Sajid Javid, fyrrum heilbrigðisráðherra Bretlands, sagði fyrst af sér og tók fram í afsagnarbréfi sínu að Johnson væri búinn að tapa trausti hans. 

„Þetta er mér núna ljóst að ástandið mun ekki breytast undir þinni stjórn – þú hefur þar með tapað trausti mínu,“ segir í bréfinu.

Stuttu síðar fylgdi Rishi Sunak, fyrrum fjármálaráðherra, í fótspor Javids. Í afsagnarbréfi sínu tók Sunak fram að þetta væri málefni sem væri þess virði að berjast fyrir. 

„Ég geri mér grein fyrir því að þetta gæti orðið mitt síðasta starf sem ráðherra en ég trúi því að þetta málefni sé þess virði til að berjast fyrir og þess vegna segi ég af mér.“

Mögulegt fall ríkisstjórnarinnar

Fréttastofa BBC greinir frá því að ónefndur bandamaður Johnsons hafi sagt í samtali við fréttastofuna að það megi búast við afsagnarbréfi Johnsons á morgun. „Enginn forsætisráðherra lifir af afsögn tveggja ráðherra,“ er haft eftir honum.

Ed Davey, leiðtogi frjálslyndra demókrata, kallaði eftir afsögn Johnsons í færslu sinni á samfélagsmiðlinum Twitter. „Farðu og farðu núna,“ segir hann þar.

Keir Starmer, leiðtogi Verkamannaflokksins hefur þá sagt það augljóst að ríkisstjórnin sé að falla. Þá bætir hann við að Johnson hafi vanvirt embætti forsætisráðherra.

 Fréttin hefur verið uppfærð

mbl.is

Bloggað um fréttina