Fundu lausn til að flytja rússneskar vörur til Svalbarða

Nokkur fjöldi Rússa býr á Svalbarða en mjög stór rússnesk …
Nokkur fjöldi Rússa býr á Svalbarða en mjög stór rússnesk námuvinnsla fer fram á eyjunni. AFP

Utanríkisráðuneyti Noregs tilkynnti í dag að lausn væri fundin til að heimila flutning á vörum frá Rússlandi til Svalbarða. Vörurnar höfðu ekki komist til landsins vegna viðskiptaþvingana gegn Rússum.

Margir rússneskir ríkisborgarar búa á Svalbarða en Rússland er þar með stórt fyrirtæki sem stundar námugröft á svæðinu. Rússnesk stjórnvöld hafa lengi viljað öðlast meiri stjórn á Svalbarða og kalla eyjaklasann Spitsbergen.

Fram kom í tilkynningu ráðuneytisins að gámarnir með varningnum hefðu verið stöðvaðir í flutningi þar sem þeir voru fluttir á rússneskum farartækjum yfir landamærin. Lausn utanríkisráðuneytisins felst í því að nú verða gámarnir fluttir með norskum farartækjum.

„Við höfum sem betur fer leyst þetta vandamál,“ sagði í tilkynningu ráðuneytisins. Þar kom jafnframt fram að tveir gámar með vistum fyrir Svalbarða væru nú á leiðinni frá Noregi á norsku skipi.

mbl.is