Hringdi í neyðarlínu án árangurs fyrir skotárásina

Skjáskot úr einu myndskeiðinu sem birtist á samfélagsmiðlinum Twitter af …
Skjáskot úr einu myndskeiðinu sem birtist á samfélagsmiðlinum Twitter af árásarmanninum þar sem hann mundar riffil.

Maðurinn sem er grunaður um hafa skotið þrjá til bana í verslunarmiðstöðinni Field's í Kaupmannahöfn á sunnudaginn hringdi í neyðarlínu geðlækna síðdegis sama dag. Enginn svaraði og stuttu seinna hófst skotárásin í Field's.

Þetta kemur fram í frétt danska ríkisútvarpsins, DR.

Enginn geðlæknir gat svarað manninum þar sem opnunartími neyðarlínunnar var breyttur vegna sumarleyfa. Eftir því sem fram kemur í frétt DR um málið er ekki vitað hvers vegna maðurinn hringdi í neyðarlínuna en stuttu seinna gekk hann vopnaður inn í verslunarmiðstöðina Field's og skaut þar þrjá til bana og særði fjóra, þar af einn lífshættulega.

Lögregla hefur staðfest að maðurinn sem var handtekinn hafi átt við andleg veikindi að stríða. Hefur hann nú verið úrskurðaður í gæsluvarðhald til 28. júlí en mun dvelja á geðdeild, ekki í fangelsi.

mbl.is