Missti báða foreldra í árásinni

Margir syrgja ástvini sína eftir skotárásina á mánudag.
Margir syrgja ástvini sína eftir skotárásina á mánudag. AFP

Á meðal fórnarlamba skotárásarinnar í Chicago á mánudag voru foreldrar tveggja ára stráks sem fannst einsamall á götum úti. 

Hin 35 ára Irina McCarthy og hinn 37 ára Kevin McCarthy voru skotin til bana á þjóðhátíðardegi Bandaríkjamanna þegar árásarmaður hóf að hleypa af skotum á hóp fólks sem gekk í skrúðgöngu. 

Sonur hjónanna særðist í árásinni. Hann er nú í umsjá ömmu sinnar og afa, að því er BBC greinir frá. Par sem var á árásarstaðnum segir foreldra Aiden hafa orðið viðskila við hann í öllum látunum. 

Parið Dana og Grieg sagði í samtali við CBS að það hafi fundið Aiden í umsjá ókunnrar konu sem skalf af hræðslu. „Við tókum hann í okkar umsjá,“ sögðu þau og lýstu því að algjört „blóðbað“ hafi átt sér stað þennan mánudag.

Minningarathöfn var haldin í Chicago í gær.
Minningarathöfn var haldin í Chicago í gær. AFP

Fylgdist með úr hjólastólnum

Föður stráksins er lýst sem dáðum starfsmanni á vinnustað sínum. „Utan vinnu var hann stoltur faðir og kærleiksríkur eiginmaður sem elskaði fjölskyldu sína. Hans verður sárt saknað,“ sagði Joe Nolan nokkur við NBC.

78 ára karlmaður, Nicolas Toledo, var einnig á meðal fórnarlamba árásarinnar. Barnabarn hans lýsir honum sem ævintýragjörnum og góðum manni. Hann fylgdist með skrúðgöngunni í hjólastól þegar hann var skotinn til bana. 

„Það sem átti að vera skemmtileg fjölskyldustund breyttist í hræðilega martröð,“ sagði Xochil Toledo, barnabarn hans. „Sem fjölskylda erum við brotin og dofin. Við sendum öllum fjölskyldum fórnarlamba okkar innstu samúðarkveðjur,“ sagði hún. 

Lést af sárum sínum

Jacki Sundheim, sem vann í samkunduhúsi gyðinga í nágrenninu, lést einnig í árásinni. Á meðal fórnarlambanna var sömuleiðis hinn 88 ára Stephen Straus, fjárhagsráðgjafi sem tók lestina á hverjum degi á skrifstofuna í Chicago. Hann skilur eftir sig tvö uppkomin börn.

Þá lést einnig Katherine Goldstein, 64 ára móðir, sem skilur eftir sig tvær dætur á þrítugsaldri. 

Í fyrstu var talið að sex manns hefðu látist í árásinni en sjöunda andlátið bar að á þriðjudag þegar einn lést af sárum sínum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert