Réðust gegn lögreglu á traktorum

Hollenskir bændur mótmæla nýrri löggjöf.
Hollenskir bændur mótmæla nýrri löggjöf. Ljósmynd/Twitter

Hörð mótmæli bænda hafa farið fram víða í Hollandi síðastliðna daga vegna hertrar löggjafar um notkun köfnunarefnis í landbúnaði. Samkvæmt henni þurfa bændur að minnka notkun köfnunarefnisáburðar um allt að 70% á næstunni.

Hollenska lögreglan hleypti af skotum í átt að traktor og handtók þrjá mótmælendur í vikunni en lögreglan í norðanverðu Fríslandi sagði engan hafa særst í átökunum. Um hafi verið að ræða viðvörunarskot og skot á traktor á ferð en mótmælendur reyndu að keyra traktorum á lögreglubíla og lögreglumenn, að sögn lögreglu.

Telja sig svipta lífsviðurværinu

Átökin eru nú til rannsóknar, þar sem hleypt var af skotum í mótmælunum, að því er fréttastofa ABC greinir frá. Hollenskir bændur hafa lokað vegum með traktorum sínum og neitað að selja vörur til matvöruverslana.

Stjórnvöld áforma meðal annars að kaupa býli með búfénaði sem framleiðir köfnunarefni í miklum mæli. Bændur telja vegið að sínu lífsviðurværi og að stjórnvöld skorti framtíðarsýn í málaflokknum.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert