Konan sem lést sterk rödd í geðheilbrigðismálum

Ing-Marie Wieselgren lést í stunguárásinni í Visby í Svíþjóð.
Ing-Marie Wieselgren lést í stunguárásinni í Visby í Svíþjóð. Skjáskot/Youtube

Konan sem lést í stunguárás í Visby í Svíþjóð í dag var Ing-Marie Wieselgren, 64 ára að aldri. Hún starfaði sem umsjónarmaður geðsviðs fyrir sveitarfélög og svæði í Svíþjóð (SKR). SVT greinir frá.

Ing-Marie var stödd í Visby til að taka þátt í nokkrum málstofum á stjórnmálamannavikunni í Almedalen þar sem hún lagði áherslu á geðheilsu barna.

Lögreglu barst tilkynning um stunguárás klukkan 13:50 í Visby í dag og var karlmaður á þrítugsaldri handtekinn, grunaður um að hafa stungið Ing-Marie til bana.

„Hugur allra er hjá fjölskyldu Ing-Marie og aðstandendum á þessum mjög erfiða tíma,“ skrifaði Carola Gunnarsson, varaformaður SKR.

„Við höfum misst háttvirtan og vel liðinn starfsmann, samstarfsmenn hafa misst góðan vin og Svíþjóð hefur misst eina sterkustu rödd sína í geðheilbrigðismálum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert