Í tíu daga hefur ekkert rússneskt gas verið flutt til Þýskalands í gegnum Nord Stream-gasleiðsluna. Forsvarsmenn Gazprom í Rússlandi segja að ástandið megi rekja til árlegrar viðhaldsvinnu.
Þýskir ráðherrar telja aftur á móti að um sé að ræða pólitíska ákvörðun og að Rússar reyni með þessu að setja þrýsting á þýsk stjórnvöld, að því er segir í umfjöllun breska útvarpsins.
Robert Habeck, efnahagsráðherra Þýskalands, sagði í síðasta mánuði að Vladimír Pútín, forseti Rússlands, væri að nota gas sem vopn til að svara þeim efnahagsþvingunum sem Evrópusambandið hefur samþykkt að beita Rússa vegna stríðsins í Úkraínu.
Um miðjan júní dró Gazprom verulega úr gasútflutningi í gegnum Nord Stream 1 gasleiðsluna þannig að nýtingin fór niður í um 40% af heildarafkastagetu leiðslunnar. Þá sögðu talsmenn Gazprom að það mætti rekja til tafa á afhendingu á tækjabúnaði sem hafði verið í viðgerð hjá þýska fyrirtækinu Siemens Energy.
Ríkisstjórn Kanada hefur greint frá því að hún muni skila Simens-túrbúinu, sem búið er að gera við, til Þýskalands sem verður notuð fyrir gasleiðsluna. Þetta hefur reitt úkraínsk stjórnvöld til reiði sem saka Kanadamenn um að aðlaga efnahagsþvinganirnar gegn Rússum að rússneskum duttlungum.
Kanadísk stjórnvöld segja að verið sé að gefa Simens í Kanada tímabundið leyfi, sem hægt er að afturkalla, til að senda búnaðinn aftur til Þýskalands, þrátt fyrir samþykktar refsiaðgerðir.
Þýsk stjórnvöld óttast að Rússar muni draga enn frekar úr gasútflutningi til landsins, eða jafnvel skrúfa alfarið fyrir það.
Þetta hefur einnig áhrif á Ítalíu þar sem orkufyrirtækið Eni segir að það muni fá um þriðjungi minna af gasi frá Gazprom í dag miðað við undanfarna daga.