Air Greenland lokar á sölu flugmiða út mánuðinn

Mikil þoka og lág ský hafa hamlað flugumferð á austurströnd …
Mikil þoka og lág ský hafa hamlað flugumferð á austurströnd Grænlands undanfarið og ekki sér fyrir endann á því. Air Greenland hefur því ákveðið að loka fyrir miðasölu út júlí. Ljósmynd/Air Greenland

Grænlenska flugfélagið Air Greenland hefur ákveðið að loka á sölu flugmiða út júlí. Ástæða þess eru erfið flugskilyrði á vesturströnd landsins vegna lágskýja og þoku, en veðurspá komandi daga og vikna lítur heldur ekki vel út.

Þúsund farþegar strandaðir í Grænlandi

Um þúsund farþegar voru í gær strandaðir á Grænlandi vegna þessa og sá flugfélagið því ekki annað í stöðunni en að stöðva sölu á nýjum flugmiðum. Félagið greinir frá þessu á Facebook-síðu sinni, en tekið er fram að þetta hafi þó ekki áhrif á flug til Nerleriit Inaat flugvallarins á austurströndinni.

Vegna þoku og lágra skýja hefur Air Greenland meðal annars aðeins getað flogið frá höfuðborginni Nuuk seinni part dags, en þar eru Dash-8 flugvélar flugfélagsins staðsettar. Þetta hefur valdið því að ekki hefur verið hægt að ferja alla farþega né farangur og vörur á réttum tíma. Inn í þetta ástand spilast einnig að vélarnar þurfa að komast í heimahöfn á Nuuk í reglulegt viðhald.

Farþegavél Air Greenland af gerðinni Dash-8.
Farþegavél Air Greenland af gerðinni Dash-8. mynd/Kristján

Gisting fyrir strandaglópa flókið verkefni

Segir félagið að ákvörðunin um að hætta sölu miða í júlí hafi verið tekin þar sem félagið hafi ekki getað veitt þá þjónustu sem félagið gefi sig út fyrir að veita. Gerir félagið ráð fyrir að með þessum ráðstöfunum muni takast að vinna á þeim biðröðum sem hafi myndast. Vegna ástandsins hefur einnig verið erfitt að fá gistingu fyrir ferðamenn, en Air Greenland segir að því hafi tekist að tryggja gistingu hingað til fyrir alla sem hafi verið veðurteppir. Það sé hins vegar mjög flókið mál þar sem lítið sé um lausa gistingu.

„Við og flugvallarfélagið Mittarfeqarfiit erum undir þrýstingi á öllum vígstöðvum,“ er haft eftir Jacob Nitter Sörensen, forstjóra félagsins. Bætir hann við að vandamál í flugþjónustu í Evrópu og verkfall flugmanna SAS geri þessa stöðu enn flóknari, en Air Greenland hefur áður getað leigt flugvélar frá evrópskum flugfélögum þegar álíka staða hefur komið upp.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert