Twitter stefnir Elon Musk fyrir dóm

„Greinilegt er að Musk trúir því að honum, ólíkt öllum …
„Greinilegt er að Musk trúir því að honum, ólíkt öllum öðrum samningsaðium sem lúta lögsögu Delaware dómstólsins, sé heimilt að skipta um skoðun, rústa fyrirtækinu, koma starfsemi þess í uppnám, eyðileggja virði hluthafa og ganga í burt,“ segir í stefnunni. AFP

Stjórn Twitter hefur stefnt auðkýfingnum Elon Musk fyrir dóm þar sem þess er krafist að hann standi við skuldbindingar samkvæmt samningi um kaup hans á fyrirtækinu fyrir 44 milljarða Bandaríkjadala.

Musk hafði gengist við kaupunum í apríl, en í síðustu viku tilkynnti hann að hann væri hættur við kaupin. 

Twitter vill ekki fallast á það að ógildingarástæður séu fyrir hendi sem geti heimilað einhliða riftun Musk á kaupsamningi sem liggur fyrir. Þetta kemur fram í frétt New York Times.

Musk telji að um hann gildi aðrar reglur

„Musk neitar að gangast við þeim skuldbindingum sem hann samþykkti með fyrirliggjandi samningi, gagnvart fyrirtækinu og hluthöfum þess, vegna þess að samningurinn þjónar ekki lengur hans persónulegu hagsmunum,“ segir í stefnunni. 

„Greinilegt er að Musk trúir því að honum, ólíkt öllum öðrum samningsaðilum sem lúta lögsögu Delaware dómstólsins, sé heimilt að skipta um skoðun, rústa fyrirtækinu, koma starfsemi þess í uppnám, eyðileggja virði hluthafa og ganga í burt.“

Tal um annað sé fyrirsláttur

Musk hefur borið fyrir sig að Twitter hafi neitað að afhenda honum gögn er varða svokallaða gervireikninga. Þá kveðst hann ekki trúa yfirlýsingum Twitter, þess efnis að einungis 5 prósent af notendum þeirra, séu gervireikningar. Þá hefur hann einnig gagnrýnt Twitter fyrir að vara sig ekki við áður en tekin var ákvörðun um að segja upp tveimur lykilstarfsmönnum úr framkvæmdastjórn fyrirtækisins. 

Þrátt fyrir þetta liggur fyrir að Musk skrifaði undir lögbindandi samning, þar sem finna má ákvæði er heimilar Twitter að tryggja fullnustu samningi með málshöfðun fyrir dómstólum. 

Í stefnunni heldur Twitter því fram að Musk vilji hætta við kaupin vegna þess að hlutabréfaverð fyrirtækisins hafi lækkað að undanförnu. Því séu það persónulegir fjárhagslegir hagsmunir hans sem ráði hér för og að tal um gervireikninga sé fyrirsláttur. 

Óskuðu eftir flýtimeðferð

Sean Edget, yfirlögfræðingur Twitter, gerði starfsfólki viðvart í dag að málsókn gegn Musk væri hafin.

Þá upplýsti hann einnig um það að búið væri að sækja um sérstaka flýtimeðferð, svo málið fari fyrir dómstóla í september, enda mikilvægt að leyst verði úr því sem fyrst. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert