Sáu rostung í bakgarðinum þegar þau vöknuðu

Rostungurinn Steini (sjá mynd) vakti athygli íbúa bæjarins Arild í …
Rostungurinn Steini (sjá mynd) vakti athygli íbúa bæjarins Arild í Skalderviken í Svíþjóð í síðasta mánuði. Í morgun birtist annar rostungur í suðaustur hluta Finnlands og skreið hann inn í bakgarð í smábæ einum áður en hann fór að hvíla sig. AFP/Johan Nilsson

Íbúar í skerjagarðsbænum Kotka í suðausturhluta Finnlands vöknuðu í morgun við heldur óvenjulega sjón, en í garði einum í bænum spókaði rostungur sig í sólinni. Hafði rostungurinn synt um 150 metra upp litla á og svo skriðið upp frá ströndinni inn í bakgarðinn.

Lögregla og dýralæknar voru kölluð á staðinn, enda geta rostungar verið hættulegir ef ekki er farið gætilega. Upphaflega var horft til þess að svæfa rostunginn og flytja hann í dýragarðinn í höfuðborginni Helsinki, en að lokum var ákveðið að falla frá þeirri hugmynd.

Réttur til að upplifa ævintýri

Í umfjöllun finnska ríkisútvarpsins, þar sem jafnframt er hægt að sjá myndir af rostungnum er haft eftir Ninu Trontti, yfirdýralækni á svæðinu, að besti kosturinn hafi verið að leyfa dýrinu að hvíla sig og leyfa því svo að halda aftur á haf út. Segir hún að rostungar sofi stóran hluta dagsins og segir hún ólíklegt að dýrið leiti lengra upp á land. Þá segir Trontti að hún telji rostunginn hafa rétt til þess að upplifa ævintýri.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem þessi rostungur vekur athygli, en fyrir nokkrum dögum er talið að sama dýr hafi verið á ferðinni í Fredrikshamn á Álandseyjum.

Freyja, Steini og Valli á ferðinni í fyrra

Rostungar hafa undanfarið vakið athygli þegar þeir hafa leitað í mannabyggðir, bæði hér á landi sem og í Noregi og á Bretlandseyjum. Fyrir tæplega viku var greint frá henni Freyju sem birtist í Tøns­berg í Noregi, en hún hafði einnig komið við á fleiri stöðum þar í landi áður. Rostungurinn Steini var einnig á ferð í júní í Skalderviken í suðvesturhluta Svíþjóðar fyrr á þessu ári.

Í fyrra kom svo rostungurinn Valli við á Höfn í Hornafirði í tvígang, en hann hafði áður sést á Írlandi, þar sem hann er reyndar sagður hafa valdið milljóna tjóni eftir að hafa sökkt tveimur bátum.

„Ef til vill háska­leg­asta heim­skauta­skepn­an

Í fyrravor mætti einnig gríðarmikill rostungur í Hammer­fest í Troms og Finn­mark, nyrstu vé Nor­egs. Við það tilefni sagði Audun Rik­ardsen líf­fræðing­ur að rostungar væru alls ekki hættulaus dýr. „Rost­ung­ur­inn er ef til vill háska­leg­asta heim­skauta­skepn­an sem þú get­ur rek­ist á í vatni,“ sagði Rikardsen, „hann er þó mun klunna­legri á landi. Hann hleyp­ur ekki á eft­ir nein­um en fólk ætti að halda góðri fjar­lægð og sýna virðingu.“

Bætti hann við að fari dýrin að hreyfa sig eða gefa frá sér hljóð sé tíma­bært að færa sig fjær.

mbl.is
Loka